Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mótmælendur krefjast nýrrar stjórnarskrár

23.11.2019 - 15:13
Mynd: Eggert Jónsson / RÚV
Mótmæli hófust á Austurvelli á öðrum tímanum í dag. Fjöldi mótmælenda er þar saman kominn. Krafist er afsagnar Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra, nýrrar stjórnarskrár og að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna nýtist til uppbyggingar samfélagsins og til að „tryggja mannsæmandi lífskjör allra“.

„Erum við fullvalda þjóð?“

„Ætlum við að leyfa Alþingi að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu í fleiri ár? Ætlum við að gefast upp? Erum við fullvalda þjóð?“ spurði Katrín Oddsdóttir mótmælendur. Katrín, sem er formaður Stjórnarskrárfélagsins og lögmaður, fer með fundarstjórn útifundarins.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Atli Þór Fanndal blaðamaður, Þórður Már Jónsson lögmaður og Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, flytja erindi á mótmælunum. 

Hljómsveitin Hatari sér þá um tónlist á viðburðinum. Í tilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að Hatari telji Samherja vera birtingarmynd síðkapítalismans. „Græðgi Samherja er tær birtingarmynd þeirra gilda sem síðkapítalisminn elur í brjósti ungra og efnilegra mógula og svikahrappa.“

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV

Óréttlætið þrífist í skjóli úreltrar stjórnarskrár og spillingar

Í tilkynningunni segir að sjö ár séu liðin frá þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem tveir þriðju hlutar kjósenda töldu að tillögur stjórnlagaráðs skyldu verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár. „Grafið er undan lýðræði í landinu með þjónkun við sérhagsmuni og ógnandi vanvirðingu gagnvart lýðræðislegum vilja kjósenda og endurteknum tilræðum við nýju stjórnarskrána.“

„Almenningur í Namibíu er rændur af íslenskri stórútgerð. Almenningur á Íslandi er rændur arðinum af auðlindum sínum. Tugir milljarða eru færðir árlega í vasa stórútgerða sem ættu að renna í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins,“ segir í tilkynningunni. Óréttlætið þrífist í skjóli úreltrar stjórnarskrár og pólitískrar spillingar. Skera þurfi upp herör gegn skattaskjólum og peningaþvætti. 

Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag, Öryrkjabandalag Íslands, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, Gegnsæi, samtök gegn spillingu, og hópur almennra borgara og félagasamtaka, standa að mótmælunum.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV