„Erum við fullvalda þjóð?“
„Ætlum við að leyfa Alþingi að hunsa þjóðaratkvæðagreiðslu í fleiri ár? Ætlum við að gefast upp? Erum við fullvalda þjóð?“ spurði Katrín Oddsdóttir mótmælendur. Katrín, sem er formaður Stjórnarskrárfélagsins og lögmaður, fer með fundarstjórn útifundarins.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, Atli Þór Fanndal blaðamaður, Þórður Már Jónsson lögmaður og Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, flytja erindi á mótmælunum.
Hljómsveitin Hatari sér þá um tónlist á viðburðinum. Í tilkynningu frá skipuleggjendum kemur fram að Hatari telji Samherja vera birtingarmynd síðkapítalismans. „Græðgi Samherja er tær birtingarmynd þeirra gilda sem síðkapítalisminn elur í brjósti ungra og efnilegra mógula og svikahrappa.“