Mótmæla lokun sundlaugarinnar á Raufarhöfn

16.01.2020 - 16:07
Mynd með færslu
 Mynd: Sundlaug Raufarhafnar
Íbúar á Raufarhöfn eru afar ósáttir við þá ákvörðun Norðurþings að loka sundlauginni á staðnum. Þá á að takmarka aðgang að íþróttahúsinu. Formaður fjölskylduráðs segir þetta gert í sparnaðarskyni auk þess sem lítil aðsókn sé að sundlauginni.

Umtalsverð starfsemi hefur til þessa verið í íþróttamiðstöðinni á Raufarhöfn. Vel útbúin líkamsræktarstöð, sundlaug og íþróttasalur. Hjón sem eiga líkamsræktina hafa einnig rekið íþróttamiðstöðina með samningi við sveitarfélagið Norðurþing. Þau hafa nú sagt upp þessum samningi og lokað líkamsræktarstöðinni.

Vont að skera niður grunnþjónustu

Í kjölfarið ákvað Norðurþing að loka sundlauginni og selja íbúum á Raufarhöfn aðgöngustýrð lykilkort að annarri aðstöðu í íþróttahúsinu. Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir, formaður hverfisráðs Raufarhafnar, segir íbúana ekki sátta við þessa ákvörðun. „Fólki er mikið niðri fyrir og það er þungt í mönnum bara. Auðvitað þurfum við að taka þátt ef að það er niðurskurður. En það hlýtur að vera hægt að gera það á annan máta heldur en að loka grunnþjónustu."

Sparnaður hjá sveitarfélaginu og lítið aðsókn í sund

Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir, formaður fjölskylduráðs Norðurþings, segir þessa ákvörðun tekna í sparnaðarskyni. Sveitarfélagið hafi þurft að skera niður þjónustu víðar. Það sé lítil aðsókn að sundlauginni á Raufarhöfn og ekki sé réttlætanlegt að halda þar úti starfmanni. Skapist meira fjármagn, verði þetta endurskoðað.

Vonandi einhver svör á íbúafundi

Það verður íbúafundur á Raufarhöfn síðar í dag þar sem Ingibjörg segir að þessarri skertu þjónustu verði mótmælt. „Þannig að vonandi fáum við einhver skýrari svör þá."