Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Morsi borinn til grafar í dag

18.06.2019 - 14:05
epa07655605 A boy holds a picture of ousted Egyptian President Mohamed Morsi as hundreds of people pray during a demonstration in front of Egyptian Embassy in Ankara, Turkey, 18 June 2019. According to media reports, Morsi, who was the first democratically elected president of Egypt, died after collapsing in court while on trial for espionage on 17 June 2019.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mohammed Morsi, fyrrverandi forseti Egyptalands, sem lést í réttarsal í gær, var borinn til grafar í Kaíró í dag. Hann var 67 ára gamall.

Einungis 10 ættingjar og nánir vinir voru við jarðarförina í fylgd lögreglumanna, að sögn AFP.

Morsi var fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Egyptalands og gegndi embætti frá júní 2012 til júlí 2013. Honum var steypt af stóli í valdaráni hersins eftir mikil mótmæli og núverandi forseti, herforinginn Abdel Fattah el-Sisi, tók völdin í landinu.

Morsi sat í einangrun í sex ár eftir handtöku árið 2013 fyrir meintar njósnir og að bera ábyrgð á dauða mótmælenda í miklum mótmælum sem mörkuðu endalok valdatíðar hans.

Heilsu Morsi hrakaði í fangelsi og aðstandendur hans sökuðu egypsk yfirvöld um að pynta hann. Enn er ekki vitað um dánarorsök forsetans, sem lést eftir að hafa haldið fimm mínútna ræðu innan úr glerbúri í réttarsal þar sem hann kom fyrir dómara vegna meintra ólöglegra samskipta við palestínsku samtökin Hamas er hann gegndi embætti forseta.

Krefjast rannsóknar

Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindasamtökin Amnesty International og Human Rights Watch hafa krafist óháðrar rannsóknar á andláti hans.

Breski þingmaðurinn Crispin Blunt, sem sat í nefnd breska þingmanna og lögfræðinga sem gerðu í fyrra úttekt á aðbúnaði forsetans í fangelsi, segir nauðsynlegt að rannsaka andlát Morsi. Niðurstaða nefndarinnar var að heilsu hans væri ekki nægjanlega vel sinnt innan fangelsisins en hann glímdi við sykursýki, lifrar- og nýrnasjúkdóma. Blunt segir að andlát forsetans staðfesti niðurstöður nefndarinnar. 

Þúsundir báðu fyrir Morsi í Istanbúl í Tyrklandi í dag. Recep Tayyip Erdogan lýsti forsetanum í gær sem píslarvætti og vottaði fjölskyldu hans samúð sína. Þeir störfuðu náið saman í valdatíð Morsi en samskipti Tyrklands og Egyptalands hafa versnað til muna eftir að el-Sisi tók við völdum.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV