Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mörg verkefni hjá björgunarsveitinni á Dalvík

Mynd með færslu
Það er ekki bjart yfir Dalvík í rafmagnsleysinu Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Enn er rafmagnslaust á Dalvík og nágrenni og mörg hús án hita. Björgunarsveitamaður á Dalvík segir verkefni dagsins hafa verið mjög mörg og ólík.

Kristján Guðmundsson varaformaður björgunarsveitarinnar segir stærstu verkefni dagsins hafi verið að reyna að fá rafmagn á kúabúin í sveitinni með rafstöðvum. Það hafi gengið misvel en flestir hafi fengið smá rafmagn og getað mjólkað aðeins. Í Svarfaðardal eru tíu kúabú. 

Þá hafi björgunarsveitin tekið á móti varðskipinu Þór svo hægt sé að tengja ljósvélina úr skipinu við kerfið á Dalvík og koma þannig rafmagni á Dalvík. Það hafi hins vegar aldrei verið reynt áður svo hann þori ekki að vera bjartsýnn, gleðin verði hins vegar mikil takist það. 

Hann segir mannskapinn vera orðinn þreyttan. Það sé búin að vera keyrsla á öllum síðan klukkan 10 á þriðjudagsmorgun og búið að nýta mikið af orku. Þeir reyni samt að skipta sér niður og leggja sig þó það séu ekki nema tvo til þrjá tíma í einu. 

Hann þorir ekki að spá fyrir um hver verkefni morgundagsins verði, það velti á svo mörgu. Þeir hafi samt miklar áhyggjur því það sé spáð hörku frosti og ekki öll hús í sveitarfélaginu með hita.