Mörg ár þar til sendiherrastaða verður auglýst

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra segir að sendiherrar séu of margir og að gera þurfi gagngerar breytingar á því hvernig þeir eru skipaðir.

Fjöldi sendiherra í dag er um 40 en utanríkisráðherra vill að hlutfallið verði miðað við 1,2 sendiherra á fjölda sendiskrifstofu og miðað við það ætti núverandi fjöldi að vera 30.

Hann hefur lagt fram frumvarp sem felur meðal annars í sér að sendiherrar þurfi ekki að vera æviráðnir um leið og þeir eru skipaðir, heldur verði þeir skipaðir til fimm ára í senn.

Þá verði auðveldað að sækja sendiherra út fyrir utanríkisráðuneytið og  stöðurnar auglýstar.

Guðlaugur Þór hefur ekki ekki skipað sendiherra frá því hann tók við embætti og sér ekki fram á að gera það í náinni framtíð. Hann var gestur í morgunútvarpi Rásar 1 í morgun og var meðal annars spurður að því hvenær búast mætti við að fyrsta sendiherrastaðan verði auglýst. „Að öllu óbreyttu yrðu nokkuð mörg ár í það.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi