Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Morðið á Khashoggi „gerðist á minni vakt“

26.09.2019 - 12:56
epa06040250 (FILE) - Prince Mohammed bin Salman of Saudi Arabia looks on during a bilateral meeting with US President Barack Obama in the Oval Office of the White House in Washington, DC, USA, 13 May 2015. According to reports on 21 June 2017, 31 of 34
Mohammad Bin Salman krónprins. Mynd: EPA
Mohammed Bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, segist bera sök á morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi vegna þess að það hafi gerst á hans vakt. Þetta kemur fram í nýrri heimildarmynd bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar PBS um krónprinsinn sem verður frumsýnd í næstu viku.

Bin Salman hefur ekki tjáð sig opinberlega um morðið hingað til. Sádi-arabíski blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var myrtur í sendiráði Sádi-Araba í Tyrklandi í byrjun október 2018. Málið vakti fljótlega heimsathygli og í upphafi staðhæfðu Sádar að Khashoggi hefði yfirgefið sendiráðsskrifstofuna heill á húfi en drógu síðar land, viðurkenndu morðið og handtóku átján manns.

„Þetta gerðist á minni vakt. Ég fæ alla sökina því þetta gerðist á minni vakt,“ segir Bin Salman í samtali við fréttamann PBS að því er kemur fram í kynningarmyndbandi um heimildamyndina. Myndin ber heitið Krónpinsinn af Sádi-Arabíu og verður frumsýnd 1. október, ári eftir morðið á Khashoggi. Í myndinni verður meðal annars viðtal við Khashoggi sem hefur aldrei verið birt áður.

Bandaríska leyniþjónustan CIA og fleiri stofnanir hafa sagt að það hafi verið Bin Salman sem fyrirskipaði morðið en yfirvöld í Sádi-Arabíu neita því. Khashoggi var gagnrýninn á konungsfjölskylduna í Sádi-Arabíu og var sökum þess í sjálfskipaðri útlegð.