Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Morales fær ekki að bjóða sig fram til þings

21.02.2020 - 04:08
epaselect epa07986944 (FILE) Evo Morales, President of Bolivia arrives for the 2019 Climate Action Summit which is being held in advance of the General Debate of the General Assembly of the United Nations at United Nations Headquarters in New York, New York, USA, 23 September 2019 (reissued 10 November 2019). According to media reports on 10 November 2019, Bolivian President Evo Morales has announced his resignation. Morales had announced earlier in the day new general elections, following the report of the Organization of American States (OAS) that recommended the repetition of the first round of the elections held on October 20.  EPA-EFE/PETER FOLEY
Evo Morales, fyrrum forseti Bólivíu. Mynd: Peter Foley - EPA
Yfirkjörstjórn Bólivíu úrskurðaði í gær að Evo Morales, fyrrverandi forseti, uppfyllti ekki lagaleg skilyrði fyrir kjörgengi í þingkosningunum í maí, og fái því ekki að bjóða sig fram. Í úrskurðinum segir að Morales, sem er í útlegð í Argentínu, uppfylli ekki búsetuskilyrði kosningalaga, sem kveða meðal annars á um að frambjóðendur verði að hafa verið búsettir í Bólivíu í ákveðinn tíma fyrir kosningar.

Morales flýði land í nóvember eftir að hann hrökklaðist frá völdum vegna ásakana um kosningasvik í forsetakosningunum þremur vikum fyrr. Morales sagði á Twitter að ákvörðun yfirkjörstjórnar væri „árás á lýðræðið“ í Bólivíu og að meðlimir yfirkjörstjórnar vissu vel að hann væri kjörgengur. Markmið þeirra væri hins vegar að banna Sósíalistaflokkinn, sem Morales fer enn fyrir þótt í útlegð sé.

Forsetaframbjóðandi sósíalista með mest fylgi

Forsetinn fyrrverandi hugðist bjóða sig fram til þings en ekki forseta í vor. Forsetaframbjóðandi Sósíalistaflokksins er Luis Arce, fyrrverandi efnahags- og fjármálaráðherra í stjórn Moralesar. Hann hafði áður verið dæmdur ókjörgengur, en yfirkjörstjórn komst að þeirri niðurstöðu í gær, að hann uppfyllti öll skilyrði og framboð hans því löglegt. Arce mælist með langmest fylgi þeirra frambjóðenda sem eitthvað kveður að, eða 31,6 prósent.

Carlos Mesa, leiðtogi Byltingarfylkingar vinstrimanna, mælist með næst mest fylgi, 17,1 prósent. Mesa velgdi Morales undir uggum í fyrri umferð hinna ógiltu forsetakosninga í október síðastliðnum og allt stefndi í einvígi þeirra tveggja í annarri umferð, þar til óvænt og, að margra áliti óeðlileg breyting varð á fylgi beggja á lokaspretti talningarinnar, Morales í vil.

Starfandi bráðabirgðaforseti Bólivíu, Jeanine Anez, er í þriðja sæti forsetaframbjóðenda samkvæmt nýjustu könnunum, með stuðning 16,5 prósenta þeirra sem taka afstöðu.