Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Moody’s hækkar lánshæfismatseinkunn ríkisins

08.11.2019 - 22:25
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
Matsfyrirtækið Moody’s hækkaði í dag lánshæfiseinkunn ríkissjóðs um eitt þrep í A2 úr A3. Horfur eru stöðugar. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytsins. 

Moody´s tilgreinir tvær meginástæður fyrir hækkuninni. Annars vegar umtalsverð og viðvarandi skuldalækkun ríkissjóðs og góð staða í samanburði við önnur ríki með sama lánshæfismat. Hins vegar aukinn viðnámsþróttur efnahagslífs sem eykur þol hagkerfisins gagnvart áföllum. Stöðugar horfur endurspegla væntingar um að áfram verði byggt á þeim árangri í sem náðst hefur.

„Í tilkynningu sinni bendir matsfyrirtækið á að skuldir ríkisins hafa lækkað verulega síðan 2011 og frá fjármálahruni mest allra meðal ríkja sem fyrirtækið metur. Bætt umgjörð ríkisfjármála, m.a. með innleiðingu laga um opinber fjármál, hjálpar til við að varðveita þann árangur. Ávinningur af einkavæðingu fyrirtækja í opinberri eigu gæti styrkt efnahagsreikning ríkisins enn frekar að mati Moody´s,“ segir á vef ráðuneytisins. 

Það má lesa meira um málið á vef ráðuneytisins. 

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV