Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mokstri hætt þar til veðrið lagast

11.03.2020 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Vetur konungur minnir á sig enn á ný. Björgunarsveitir hafa sinnt útköllum um land allt frá því í gærkvöldi. Öxnadalsheiði er lokuð og mokstri á Norður- og norðaustanverðu landinu hefur verið hætt þar til veðrið lagast.

Vetrarfærð er í öllum landshlutum og víða er beðið með mokstur vegna veðurs. Strætó hefur fellt niður ferðir á landsbyggðinni. Raskanir hafa orðið á innanlandsflugi en millilandaflug er á áætlun. Frá því í gærkvöldi hafa björgunarsveitir fengið um 20 útköll víða um landið, flest vegna bíla sem sátu fastir. Gular viðvaranir eru í gildi allt frá Vestfjörðum til suðausturlands vegna norðaustan hríðar. Þær gilda til klukkan átta í kvöld og gert er ráð fyrir talsverðri snjókomu fram eftir degi.

Bíða með mokstur þar til veðrið lagast

Öxnadalsheiðin er ófær og samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er líklegt, miðað við veðurspá, að hún opni ekki aftur fyrr en í fyrramálið. Það sama á við um vegi víða um Norður og Norðausturland þar sem mokstri hefur verið hætt frá Eyjafirði austur á Kópasker þar til veðrið lagast. Þá er víða þungfært á Austurlandi og Fjarðarheiði er lokuð. Á Vestfjörðum er fært milli staða í nágrenni Ísafjarðar og Patreksfjarðar, annars er víða þungfært eða ófært og beðið með mokstur.

Mikil snjóflóðahætta

Mikil hætta er á snjóflóðum á utanverðum Tröllaskaga og á Austfjörðum. Töluverð hætta er á norðanverðum Vestfjörðum en hvergi er talin hætta í byggð. Óvissustig er í gildi vegna snjóflóðahættu í Ólafsfjarðarmúla, á Siglufjarðarvegi og í Súðavíkurhlíð. 

Það birtir til

Góðu fréttirnar eru að það dregur úr vindi og ofankomu í kvöld og kólnar í veðri. Þokkalegasta veður verður á morgun, smáél á Norðausturlandi. Suðvestanlands fer aftur að snjóa síðdegis.