Halla segir leirmokstur í Ytri-Fagradal hafi byrjað fyrir um tíu til fimmtán árum. „Það var faðir vorið sem byrjaði á því, pabbi minn. Hann var svo áhugasamur um leir og að gera eitthvað úr honum. Hann vissi líka að það var svo mikið til af honum. Alls staðar þar sem maður stingur niður fyrir jarðveginn er alltaf komið í leir. Hvort sem það er verið að grafa fyrir staur eða skurð.“
Í nágrennið kom þá leirkerasmiður sem Steinólfur, pabbi Höllu, frétti af og bauð í heimsókn. Þar með hófst samstarf þeirra á milli. „Þau voru miklir vinir og hún tjónkaði við leirinn. Tókst að gera alls konar fallega hluti. Ég held bara því starfi áfram, að moka þessum leir upp,“ segir hún.
Halla segir að það sé allur gangur á því hversu mikill leir er mokaður. Hann ferðist líka heimshornanna á milli, þar á meðal til Danmerkur, Sviss og Þýskalands. „Á þessu ári hef ég sent töluvert. Tvö til þrjú hundruð kíló fóru til Bandaríkjanna og þaðan til Marokkó. Það er listamaður sem vinnur með hann í Cleveland. Katrín Sigurðardóttir.“
Halla sótti námskeið í býflugnabúskap 2013 og byrjaði þá með sínar eigin flugur. „Það var alltaf gamall draumur sem þurfti að rætast. Ég fór á námskeið og þurfti að standast próf. Maður þarf að læra að umgangast þessi dýr alveg eins og önnur. Þetta er ekki alveg meðfætt,“ segir Halla.
Halla segir árferðið stýra afrakstri býflugnabúskapnum töluvert. „Í fyrra var ömurlegt býflugnaár, þær tóku ekki einu sinni hunang. Svo var allt annar bragur á sumrinu í sumar, þannig það var alveg hellingur. Mjög sterkt bú. Þetta er allra skemmtilegasti búskapur sem ég hef fengist við, þetta er svo skemmtilegt samfélag,“ segir Halla.
Rætt var við Höllu Sigríði Steinólfsdóttur í þættinum Sögur af landi á Rás 1. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að ofan. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á spilara RÚV.