Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Mögulega lokað ef kristalsstuldur heldur áfram

20.03.2017 - 16:54
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Umhverfisráðuneytið hefur árum saman hunsað óskir Umhverfisstofnunar um fjármagn til að hindra þjófnað á fágætum silfurbergskristöllum úr Helgustaðanámu. Sviðsstjóri segir hættu á að náman missi verndargildi sitt og til greina komi að loka henni fáist ekki fé til landvörslu.

Umhverfisstofnun setti Helgustaðanámu við norðanverðan Reyðarfjörð á rauðan lista yfir náttúruvætti í mikilli hættu fyrir um sjö árum. Náman er einn af fáum stöðum í heiminum þar sem finna má silfurbergskristalla. Silfurbergsnám var stundað frá miðri 17. öld og fram á þá 19. en tært silfurberg var eftirsótt til rannsókna þar sem í því er tvöfallt ljósbrot. Náman er nú vinsæll ferðamannastaður og eins og greint hefur verið frá í fréttum RÚV hika ferðamenn ekki við að hafa á brott með sér kristalla úr námunni. Enginn landvörður er í Fjarðabyggð og landvörður á Teigarhorni gat aðeins heimsótt námuna þrisvar síðasta sumar. Gagnrýnt hefur verið að fjármunir hafi verið settir í að bæta aðgengi að námunni en ekki í að vernda hana með landvörslu.

Ólafur Arnar Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir að stofnunin hafi í allmörg ár upplýst ráðuneytið um að hætta sé á því að svæðið missi verndargildi sitt. „Sökum þess að fólk gengur óheft í námuna og sækir sér steina. Þannig að stofnunin hefur núna í nokkur ár bent á að þarna vanti fjármagn til að standa undir aukinni vörslu þessa svæðis,“ segir Ólafur. Aðspurður um hvort eðlilegt sé að viðkvæm svæði eins og þetta séu ferðamannastaðir og hvort réttast væri að loka námunni segir Ólafur. „Ef það fæst ekki fjármagn og fer áfram sem horfir þá hljótum við að leita allra leiða til að vernda svæðið. (Spurning fréttamanns: Og í því tilliti kæmi þá til greina að loka því?) Það er einn af þeim möguleikum já. Umhverfisstofnun getur samkvæmt nýjum náttúruverndarlögum lokað svæðum tímabundið og svo einnig varanlega með staðfestingu ráðherra,“ segir Ólafur.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV