Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mögulega kosið aftur í Garðabæ

21.02.2020 - 12:38
Innlent · BSRB · Garðabær · Kjaramál
Mynd með færslu
 Mynd: Garðabær - Vefsíða Garðabæjar
Hluti félagsmanna í Starfsmannafélagi Garðabæjar, STAG, er óánægður með framkvæmd atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun í vikunni. STAG er aðildarfélagi að BSRB og var eina félagið sem náði ekki nægri kjörsókn til að samþykkja verkfall.

40% tóku þátt, en helmingur félagsmanna varð að greiða atkvæði til þess að atkvæðagreiðslan yrði gild. Af þeim sem tóku þátt samþykktu nærri 73% verkfallsboðun samkvæmt vef STAG.

Samkvæmt heimildum fréttastofu ríkir óánægja vegna þess að tölvupóstur var sendur frá STAG tveimur dögum fyrir atkvæðagreiðsluna. Í kosningavikunni var vetrarfrí í skólum Garðabæjar, og því hafi ef til vill einhverjir ekki séð tölvupóstinn. Þá herma heimildir fréttastofu að tilkynningin frá starfsmannafélaginu hafi sjálfkrafa endað í ruslpósthólfi. Hjá STAG, líkt og öðrum aðildarfélögum í Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og á Suðurnesjum, fór pósturinn ekki beint frá aðildarfélögunum sjálfum, heldur í gegnum síðuna sem atkvæðagreiðslan var haldin í gegnum, ElectionBuddy. Fréttastofu barst ábending um að starfsfólk á leikskólum í Garðabæ sé að hugsa um að leita að vinnu í leikskólum í öðrum bæjarfélögum ef kosningin verður ekki endurtekin.

Ekki verið að hlunnfara neinn

Kristján Hilmarsson, formaður STAG, segist hafa orðið var við nokkrar kvartanir í gegnum Facebook og í tölvupósti. Hann segir starfsmannafélagið hafa sent út tölvupóst samkvæmt póstlista félagsins. Félagsmenn sjá sjálfir um að skrá tölvupóstfang sitt hjá STAG. Kristján segir kosningarnar jafnframt hafa verið vel kynntar af BSRB, til að mynda með auglýsingum í prent- og ljósvakamiðlum og baráttufundi í Háskólabíói.

Kristján segir í samtali við fréttastofu að STAG sé að skoða framhaldið. „Þetta er í fyrsta sinn sem við vörum í vefkosningu og erum að læra af því,“ segir hann. Staðan verði endurmetin eftir helgi og þá verði skoðað hvort kosið verði aftur, og hvernig þær kosningar verða framkvæmdar. Ef kjörsókn verður næg í nýjum kosningum eigi félagsmenn í STAG þó ekki eftir að fara í verkfall fyrstu dagana sem eru boðaðir, 9. og 10. mars.

Kristján leggur þó áherslu á að þó félagsmenn STAG séu ekki á leið í verkfall sé félagið síður en svo að draga sig úr kjarabaráttunni. Fólk fái þær launahækkanir sem barist er um, og því ekki verið að hlunnfara einn né neinn.

Fréttinni var breytt klukkan 15:01 þar sem upplýsingum um póstana frá ElectionBuddy var bætt við.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV