Bharatiya Janata-flokkurinn, flokkur Narendra Modi forsætisráðherra, hefur lýst yfir sigri í þingkosningunum á Indlandi. Byrjað var að telja atkvæði í morgun og gefa tölur gefa til kynna að sigurinn verði stærri en í síðustu kosningum árið 2014.
Samkvæmt þeim fær Bharatiya Janata-flokkurinn hátt í 300 sæti af 542 í neðri deild indverska þingsins, mun meira en spár höfðu gert ráð fyrir og tíu þingsætum meira en í síðustu kosningum. Þá náði flokkurinn hreinum meirihluta á þingi, fyrstur flokka í þrjá áratugi.
Flokkar í bandalagi við Bharatiya Janata fá um 50 þingsæti, þannig að þeir verða með til samans um 350 þingsæti.
Helsti keppinauturinn Kongress-flokkurinn fær einungis 49 þingsæti samkvæmt fyrstu tölum, en hann og flokkar í bandalagi við hann fá til samans innan við 90 þingsæti.
Í upphafi kosningabaráttunnar virtist útlitið ekkert sérstaklega gott fyrir Bharatiya Janata, en að sögn fréttastofunnar AFP tókst Modi að snúa vörn í sókn með því að láta kosningarnar snúast um hann sjálfan, þannig að kosningamál stjórnarandstöðunnar hafi fallið í skuggann.
Um 900 milljónir manna voru á kjörskrá, en kjörsókn var 67 prósent. Fréttir af stórsigri Bharatiya Janata höfðu talsverð áhrif í kauphöllum landsins í morgun og hafa vísitölur aldrei verið hærri.