Mo Farah dregur fram gaddaskóna - Með á ÓL í Tókýó

epa06141293 Silver medalist Mo Farah of Great Britain poses during the awarding ceremony of the men's 5,000m at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 12 August 2017.  EPA/ANDY RAIN
 Mynd: EPA

Mo Farah dregur fram gaddaskóna - Með á ÓL í Tókýó

29.11.2019 - 11:20
Enski langhlauparinn Mo Farah tilkynnti í dag um það að hann hafi ákveðið að mæta til leiks á Ólympíuleikana í Tókýó næsta sumar og ætli sér þar að gera sitt besta til að verja titil sinn í 10.000 m hlaupi.

Farah sem er meðal vinsælustu íþróttamanna Bretlandseyja varð Ólympíumeistari í bæði 5000 og 10.000 m hlaupum á Ólympíuleikunum í London 2012 og í Ríó de Janeiro 2016. Þá vann hann gull í 5000 m hlaup á HM 2011, 2013 og 2015 og gull í 10.000 m hlaupi á HM 2013, 2015 og 2017.

Eftir heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum í London 2017 ákvað Farah að leggja gaddaskóna á hilluna og einbeita sér að götuhlaupum. Hann hefur því keppt í maraþonhlaupum síðustu tvö ár með góðum árangri. Sögusagnir hafa þó verið uppi um það að undanförnu að Farah hafi legið undir feldi með að snúa aftur á hlaupabrautina og vera með á Ólympíuleikunum næsta sumar.

Nú hefur Farah svo gefið það opinberlega út að hann setji stefnuna á Tókýó og ætli sér þar að keppa í 10.000 m hlaupi. Hann segir í myndskeiði sem hann birti á Youtube í dag og má sjá hér fyrir ofan, að hann voni að hann hafi ekki misst mikinn hraða á síðustu árum. Öll hans einbeiting snúi nú að því að toppa í 10.000 m hlaupinu í Tókýó næsta sumar.

Ólympíuleikarnir í Tókýó verða settir 24. júlí og þeim lýkur 9. ágúst. RÚV á sjónvarpsréttinn fyrir Ólympíuleikana og mun því sýna frá þeim.

Tengdar fréttir

Frjálsar

Mo Farah rétt vann sitt síðasta hlaup

Frjálsar

Mo Farah í 2. sæti í síðasta hlaupinu

Frjálsar

Mo Farah varði titilinn naumlega