Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mjólkurkýr og bændur kveðja Skálholt

07.06.2019 - 20:11
Mynd: Jón Þór Víglundsson / RÚV
Skálholtskýr tínast nú af bænum ein af annarri því mjólkurbúskap verður hætt þar nú á fardögum sem eru í þessari viku. Síðasti ábúandinn og vígslubiskup kvöddust með mjólkurglasi og trega. Ætli ég láti ekki leggja mig inn á Hæli í Gnúpverjahreppi, segir síðasti ábúandinn í Skálholti.

Það er komið að kveðjustund í fjósinu í Skálholti. Kúabúskapur hefur verið aflagður. 

Hvað hafið þið verið með margar kýr hérna?

„Við vorum með mest 30 mjólkandi á tímabili og svo núna eru þær ekki nema fimmtán,“ segir Gestur Einarsson, síðasti ábúandi í Skálholti.

Hvað eruð þið búin að selja margar?

„Það eru núna farnar til sölu einhverjar fimm,“ segir Gestur.

Kúabúskapur í Skálholti á sér langa sögu.

„Það er búið að vera eftir því sem ég best veit frá landnámstíð,“ segir Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti.

Hvers vegna eruð þið að hætta kúabúskap núna?

„Það er nú bara í fyrsta lagi mjög miklar breytingar í greininni. En í öðru lagi þá hefur fjósið verið á undanþágu. Og þá þarf að taka af skarið. Eigandinn er kirkjumálastjóri, ætlar hann að leggja stórfé í endurbætur á fjósi?,“ segir Kristján.

Kirkjumálaráð ákvað að búskapurinn yrði lagður af.

Hvernig hefur verið að vera ábúandi hérna?

„Það er búið að vera æðislegt. Enda er þetta mjög blessað hérna. Þetta eru einu heilögu kýrnar sem ég hef mjólkað í gegnum tíðina,“ segir Gestur.

Hvað verður nú um þig þegar allar kýrnar hafa verið seldar?

„Nú, ætli fari ekki og láti leggja mig inn á Hæli í Gnúpverjahreppi, þaðan sem ég er ættaður frá,“ segir Gestur.

Og ábúðin í Skálholti er Gesti og Rakel Þórarinsdóttur, eiginkonu hans, eftirminnileg.

„Það eru ljósmæðrastörfin hérna. Það er toppurinn hjá mér. Það eru þvílík átök við það en það er svo gaman að geta tekið á móti nýju lífi,“ segir Rakel.

Veistu hvað þú hefur tekið á móti mörgum kálfum?

„Ætli það séu ekki þrír eða fjórir sem ég hef verið mest sjálf í,“ segir Rakel.

Fjós eru um margt merkileg.

„Það er nú kannski ekki þessi bygging en frægasta fjósasagan er ábyggilega af Oddi Gottskálkssyni þegar hann var að þýða Nýja testamentið. Það kemur út við siðaskiptin í Skálholtsstifti,“ segir Kristján.

Veistu af hverju hann ákvað að þýða úti í fjósi?

„Ég er ekki alveg klár á því. En sumir hafa sagt: Þetta var hlýjasta húsið að sitja með penna og skrifa. En aðrir hafa sagt að hann hafi ekki gert þetta með leyfi,“ segir Kristján.

Er eftirsjá af þessum búskap?

„Já það er eftirsjá,“ segir Kristján.