Mjög óvenjuleg hitabylgja

26.07.2019 - 15:47
Mynd: Samsett mynd / EPA/RÚV
Hitabylgjan í Evrópu þar sem hvert hitametið á fætur öðru hefur fallið er bein og „aggressív“ afleiðing af miklum útblæstri gróðurhúsalofttegund, segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hitabylgjan nú er mjög óvenjuleg eins og sést á því hversu miklu munar á nýju hitametunum og þeim gömlu, segir Elín Björk. Það er ekki nóg með að hitinn geri fólki lífið leitt meðan hann er í hámarki heldur geta langtímaáhrifin orðið mikil.

„Þetta er mjög óvenjuleg hitabylgja. Það bendir til þess að nú sé grunnhiti jarðar orðinn það mikið hærri en hann var fyrir kannski fimmtíu árum síðan að hitabylgjur sem koma núna, af svipuðum ástæðum og þær voru fyrir fimmtíu árum, eru svona miklu heitari. Þetta voru sum hver eldgömul met sem voru að falla. Þau voru ekki að falla um 0,1 eða 0,3 gráður. Þær voru að falla um 2,8 upp í þrjár gráður sem er rosalega mikið,“ segir Elín Björk.

„Eitt af því sem hefur verið talað um hvað lengst í sambandi við hnattrænar loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar er að jaðarviðburðir, viðburðir sem hafa hingað til gerst á fimmtíu ára fresti eða hundrað ára fresti, fari ört fjölgandi," segir Elín Björk. Þetta birtist í því að fellibylir verði öflugri en áður og hitabylgjunum fjölgi. „Þær verða alltaf verri og verri, þurrkarnir verða meiri og meiri.“

„Það var náttúrulega alveg gríðarleg hitabylgja í Evrópu síðasta sumar. Það var hitabylgja í Evrópu fyrir mánuði síðan sem líka ruddi mjög mörgum gömlum metum úr gildi og svo aftur núna.“

Ekki bara hitabylgja heldur langtímaafleiðingar

Elín Björk vísar í rannsóknir bresku veðurstofnunarinnar sem gera ráð fyrir því að um miðja öld verði hitabylgja eins og í fyrra jafnvel annað hvert ár. „Það er gríðarleg breyting. Þetta er ekki bara hiti. Þetta hefur líka áhrif á vatnsbúskap, grunnvatnsstöðu, hitastig sjávar og vatna. Þetta hefur áhrif á allt lífríki. Þetta getur haft gríðarlega slæmar afleiðingar, sem við höfum verið að heyra um en höfum kannski svolítið skellt skollaeyrum við. Ég held að þetta séu bara beinar og aggressívar afleiðingar af þessum mikla útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem hefur verið, er gegndarlaus og virðist ætla að vera áfram.“

Elín Björk segir margt til ráða. Ýmsar ráðstafanir hafa verið haldnar til að ræða og bregðast við loftslagsbreytingum. „Nú þurfa þeir sem öllu ráða að taka til og standa við stóru orðin. Það þarf að draga mjög markvert úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.“

Lífríki jarðar aðlagast hægum breytingum en ekki er víst að raunin verði sú sama með stökkbreytingar, segir Elín Björk. „Ef það er hitabylgja eða miklir þurrkar einu sinni á fimmtíu ára fresti hefur grunnvatnsstaðan fimmtíu ár til að jafna sig. Ef sömu hitabylgjur eru farnar að gerast annað hvert ár er ekkert sem segir að grunnvatnsstaðan jafni sig nokkurn tímann. Þá getum við verið komin í alls kyns vandræði.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi