Mjög læsileg og hæfilega fræðileg bók

Mynd:  / 

Mjög læsileg og hæfilega fræðileg bók

27.03.2019 - 20:00

Höfundar

Stund klámsins er heiti fræðibókar sem kom út í haust og er eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Kristín byggir bókina á ritgerð sinni í sagnfræði og Þorgeir Tryggvason segir bókina bæði læsilega og hæfilega fræðilega.

Stund klámsins fjallar um sögu kláms á Íslandi á árum kynlífsbyltingarinnar og er byggð á meistaraprófsritgerð Kristínar Svövu í sagnfræði. Rýnt er í hugmyndir um klám sem andstæðu upplýsandi fræðslu og listrænnar tjáningar, um kynfrelsi og bælingu, ritskoðun og tjáningarfrelsi, ónáttúru og afbrigðilegar hneigðir. Við sögu kemur ýmislegt sem ekki hefur verið rætt í samhengi Íslandssögunnar hingað til – enda stranglega bannað börnum.

Mynd með færslu
 Mynd:
Þorgeir Tryggvason og Ólína Þorvarðardóttir ræddu bókina Stund klámsins eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur í Kiljunni.

„Hún rekur þetta allt saman mjög vel og þetta er mjög læsileg og hæfilega fræðileg bók fyrir almenna lesendur,“ segir Þorgeir Tryggvason. Kristín Svava byrjar á miklum hugmyndasögulegum inngangi um klám og hvernig það hefur verið skoðað og hver afstaða til þess hefur verið. „Síðan rekur hún nokkur mál sem upp komu á Íslandi á þessum tímum, bæði dómsmál og mál sem komust þó ekki svo langt að verða dómsmál. Annars vegar voru það sjoppurit sem innihéldu grófar kynlífsfrásagnir sem voru kærð og hins vegar tvær bíómyndir sem enduðu á því að önnur þeirra var bara sýnd og hin stöðvuð en þar urðu ekki dómsmál,“ segir Þorgeir og vísar þar í kvikmyndirnar Táknmál ástarinnar og Veldi tilfinninga sem ollu miklu fjaðrafoki á sínum tíma.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir tekur í sama streng og Þorgeir og finnst Stund klámsins læsileg og um leið strangfræðileg. „Þetta er merkilegt innlegg í menningarsögulega umfjöllun um þennan þátt í menningu okkar. Þetta er fyrsta menningarsögulega fræðiritið sem við fáum á íslensku inn í þennan menningarkima okkar sem hefur nú lengst af þrifist í skúmaskotum og undir yfirborðinu,“ segir Ólína og gleðst yfir því hversu vel Kristín Svava tekur á þeim skilgreiningarvanda sem kom upp á sjöunda og áttunda áratugnum í tengslum við klám. Í hegningarlög hafi vantað alla skilgreiningu á klámi. „Er klám brot gegn blygðunarkennd? Er það valdbeitingar- og kúgunartæki? Brýtur það í bága við kvenfrelsi eða er það partur af kvenfrelsi? Þetta voru allt óuppgerðir hlutir og eru að mörgu leyti enn,“ segir Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.