„Mjög ánægjulegt“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta er mjög ánægjulegt,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra um þá ákvörðun Yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu að fjalla um Landsréttarmálið. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í mars síðastliðnum að íslenska ríkið hefði brotið gegn Mannréttindasáttmála Evrópu með skipan fjögurra dómara við Landsrétt þegar þáverandi dómsmálaráðherra vék frá tillögu dómnefndar.

„Við lögðum áherslu á að málið færi til yfirdeildarinnar til endurskoðunar. Við vildum láta endurskoða málið af því að við töldum niðurstöðuna ganga of langt. Hún getur einnig haft fordæmisgildi,“ segir Áslaug Arna. Hún segir viðbúið að ár geti liðið þangað til yfirdeild kemst að niðurstöðu.

Bent hefur verið á að óvissa ríki í dómskerfinu á meðan fjórir dómarar eru í leyfi vegna málsins.

„Dómarar dæma sjálfir um sitt hæfi og það er kannski eðlilegt að þeir fái tækifæri til að meta stöðuna í ljósi þessarar niðurstöðu. Hæstiréttur hefur auðvitað komist að þeirri niðurstöðu að þeir eru löglega skipaðir. Síðan er það auðvitað praktískt úrlausnarefni hvernig best má tryggja starfsemi Landsréttar. Ég hef nú þegar óskað eftir nýjum og ítarlegri upplýsingum um fjölda mála og stöðu þeirra við réttinn,“ segir Áslaug Arna. 

En hvers konar undirbúning kallar þetta á af hálfu ríkisins?

„Við munum setjast niður með ríkislögmanni og ræða þetta í ríkisstjórn á morgun. Það skiptir auðvitað miklu máli að það sé eins vel staðið að málatilbúnaðinum fyrir Ísland eins og kostur er,“ segir Áslaug.

Þú hefur væntanlega búist við þessari niðurstöðu?

„Já, mér þykir þetta eðlilegt. Það auðvitað fylgir aðild okkar að við getum óskað eftir endurskoðun. Það er jákvætt að það sé tekið fyrir og metið öðru sinni,“ segir Áslaug Arna.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi