Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mjaldur í boltaleik í Norðurhöfum

11.11.2019 - 14:22
Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Myndskeið af mjaldri sem sækir ruðningsbolta sjófarenda í Norðurhöfum hefur farið hratt yfir öldur veraldarvefsins síðustu daga. Hvalurinn er óvenjulega vinalegur og virðist skemmta sér vel í boltaleik.

Sjómennirnir kasta ruðningsbolta frá heimsmeistaramótinu í ruðningi í Suður-Afríku í sumar og mjaldurinn sækir, eins og hundur að leik með eiganda sínum.

Í vefútgáfu breska dagblaðsins The Independent er því velt upp að þarna gæti Hvaldimír verið á ferð. Það er nafnið sem gefið var hvalnum sem komst í fréttir í vor við strendur Norður-Noregs. Hvaldimír var talinn vera sérþjálfaður rússneskur njósnahvalur. Við hann var fest beisli sem á stóð „Eign Sankti Pétursborgar“.

Hvalurinn hefur síðan verið þekktur fyrir að synda að bátum, biðja um mat og leika á alls oddi. Það þykir vera vísbending um að hann sé taminn og vanur samskiptum við fólk.