Missti vinnuna vegna Hatara

07.06.2019 - 10:37
Myndir sem sjónvarpsstöðin KAN sendi okkur
 Mynd: Ohad Kab - KAN
Ólga greip um sig meðal Ísraelsmanna eftir að starfsmanni El Al flugfélagsins var sagt upp.

Starfsmaðurinn birti mynd í lokuðum starfsmannahópi El Al á samfélagsmiðlum. Myndin sýndi sætaskipan í flugvél, sem liðsmenn Hatara voru farþegar í, frá Tel Aviv. Undir myndina var skrifað: „Svona förum við með Íslensku sendinefndina“ og vísaði textinn til þess að sætaskipanin væri hefnd fyrir athæfi Hatara á lokakvöldi Eurovision. Liðsmenn sveitarinnar héldu fána Palestínumanna á lofti þegar úrslit keppninnar voru kynnt. Þetta kemur fram í frétt ísraelska fjölmiðilsins The Times of Israel.

Liðsmenn Hatara tilkynntu að þeir væru að íhuga að senda formlega kvörtun til flugfélagsins El Al vegna framkomu starfsmanna félagsins. Á þriðjudag var svo staðfest El Al að starfsmanninum hefði verið sagt upp.

Meðal þeirra sem hafa tjáð sig um ákvörðun El Al er rapparinn og aktivistinn The Shadow. Hann birti mynd af sér á samfélagsmiðlum þar sem hann bar eld að flugmiða frá flugfélaginu og hvatti aðra til að gera slíkt hið sama og sniðganga flugfélagið.

Flugfélagið sendi frá sér yfirlýsingu þar sem segir að brottreksturinn tengist ekki sætaskipuninni með beinum hætti, heldur hafi starfsmaðurinn brotið trúnað með opinberri myndbirtingu á trúnaðargögnum fyrirtækisins.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi