Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Missti sex hross í óveðrinu

18.12.2019 - 19:39
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Bóndi í Húnavatnssýslu sem missti sex hross í óveðrinu, segist ekki hafa grátið vegna fjárhagslegs tjóns, heldur tilfinningalegs. Hann segir bændur hafa gert allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga skepnum.

Lýsir atburðum sem einum stórum harmleik

Hrossafellirinn í óveðrinu í síðustu viku er sá mesti í áratugi en ástandið er hvað verst í Húnavatnssýslum. Þar drápust tugir hrossa og enn er nokkurra saknað. Tryggvi Rúnar Hauksson, bóndi missti sex hross. Hann lýsir þessu sem einum stórum harmleik.  

„Það skellur hér á óveður og um leið og því slotar fer maður að athuga með skepnur og þegar maður kemur þá sé ég strax að það vantar hluta í hópinn. Þetta var náttúrulega bara hræðileg aðkoma í rauninni.“

Fannst þér þið hrossabændur nægilega vel upplýstir um hað væri í vændum?

„Ég er alveg fullviss um að menn hér á þessu svæði höfðu gert það sem þeir gátu gert. Ég meina hross eru búnir að vera á útigangi bara frá því að land byggðist.“

Grætur ekki fjárhagslegt tjón

Hann segir tjónið ekki metið til fjár. „Ja, ég er ekki að gráta það að þetta sé eitthvað fjárhagslegt tjón sko. Ég meina þetta er frekar tilfinningar. Peningar skipta ekki máli í þessu.“

Viðtal við Tryggva Rúnar Hauksson í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV