Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Missti meðvitund 17 ára í raflostmeðferð

Mynd: Rolling Stone / RÚV

Missti meðvitund 17 ára í raflostmeðferð

03.07.2019 - 16:28

Höfundar

Vegna agavandamála, daðurs við samkynhneigð og dópneyslu var Lou Reed sendur í raflostmeðferð sem ungur maður. Meðferðin hafði án efa djúpstæð áhrif en þó ekki tilætluð. Sögu Lou Reed og The Velvet Underground verður gerð góð skil í nýjum þáttum á Rás 2.

Tónlistarmaðurinn og forsprakki The Velvet Underground, Lou Reed, var einn þeirra sjúklinga sem sóttu raflostmeðferð á geðsjúkrahúsinu Creedmor í New York árið 1959. Foreldrar Reed voru ráðalausir í kjölfar þrálátra hegðunar- og agavandamála þar sem Lou þótti uppstökkur, mislyndur og neytti eiturlyfja. Það voru þó samkynhneigðar hugsanir Reed sem ollu áhyggjum og sannfærðu geðlækninn um þörfina á raflostmeðferð. Þeir sjúklingar sem hlutu þá meðferð fengu allir nákvæmlega sama rafstyrkinn, burtséð frá líkamsbyggingu. Vegna þessa missti hinn 17 ára Lou Reed alltaf meðvitund í meðferðartímunum sínum, enda var hann ekkert heljarmenni, renglulegur og um 170 sentimetrar á hæð. Reed var sendur þangað þetta ár, þrisvar til fjórum sinnum í viku, eftir tilmælum geðlæknis sem sinnti Reed í samtalsmeðferð.

Mynd með færslu
Skúli Arason er umsjónarmaður nýrra þátta um The Velvet Underground.

Líf Lou Reed breyttist mikið þegar hann heyrði rokk og ról í útvarpinu, hann lét hafa eftir sér að í raun og veru hafi ekki verið líf á plánetunni fyrir tíma rokksins. Reed fann loksins tilgang með lífinu í rokktónlist og færði sig fljótlega úr píanóspili yfir á gítarinn. Alla sína gítarfærni fékk hann með því að leika með lögunum í útvarpinu og skapaði með sér snemma afar einkennandi gítarstíl, ryþmískur, ákveðinn og að einhverju leyti líkur hans fasi og sveiflum.  

Farið verður ýtarlega yfir sögu Lou Reed og annara meðlima The Velvet Underground í nýrri þáttaseríu um sveitina á Rás 2, á sunnudögum í júlímánuði. Þættirnir verða fimm talsins enda sveitin talin ein þeirra áhrifamestu í sögu popp- og rokktónlistar. Ummæli upptökustjórans og tónlistarpáfans Brian Eno um The Velvet Underground eru margfræg en hann sagði að fáir höfðu eignast plötu með sveitinni í upphafi en þeir sem það gerðu stofnuðu allir eigin hljómsveitir. Tónlistarmaðurinn Skúli Arason fer yfir ferilinn, fjallar um meðlimina, nýja strauma sem þau innleiddu og áhrif sveitarinnar þá og nú.

Fyrsti þáttur Skúla um The Velvet Underground verður á dagskrá Rásar 2 á sunnudaginn kl. 15.03. Heyra má brot úr þættinum með því að smella á myndina efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fann fyrstu Bowie-upptökuna í brauðkörfu

Tónlist

Raflost, neysla og transkonur í ævisögu Reed

Tónlist

Velvet Underground & Nico 50 ára

Tónlist

Arfleifð Lou Reed gerð aðgengileg