Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Missti bæði vinnu og heilsu eftir einangrun

08.05.2017 - 21:08
Íslendingar beita einangrun á gæsluvarðhaldsfanga allt að tuttugu sinnum oftar en Danir. Varla er til sú tegund frelsissviptingar sem gengur lengra en sólarhrings innilokun án sambands við umheiminn, jafnvel vikum saman. Það er þó frekar regla en undantekning í gæsluvarðhaldi hérlendis.

Í kvöld fjallaði Kastljós um Guðmund Guðlaugsson, sem var lokaður inni í einangrunarklefa í ellefu sólarhringa, við nöturlegar aðstæður í apríl árið 2011. Honum var neitað um lögbundin réttindi sem lögreglu mátti vera ljóst að bryti bæði í bága við lög og stjórnarskrá. Hann fékk ekki að fara út undir bert loft, fékk ekki læknisaðstoð, svaf á steinsteyptum bedda með eitt teppi og ljósin kveikt allan sólarhringinn. Ef hann vildi fara í sturtu þurfti hann að nota sama handklæði og aðrir fangar. 

Hann fékk aldrei að vita nákvæmlega hvers vegna hann var handtekinn en eftir að honum var sleppt og svo hreinsaður af öllum grun - var lífið í rúst. Hann var búinn að missa vinnuna og nú sex árum síðar er hann óvinnufær vegna afleiðinga þess sem Hæstiréttur segir ígildi pyntinga.

Forsagan er þessi: Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu komst árið 2010 yfir upplýsingar um að hálfu öðru kílói af kókaíni hefði verið smyglað til landsins. Lögreglan lagði hald á efnin í ferðatösku í bifreið stuttu síðar. Þrír menn voru handteknir og fengu að lokum þunga dóma fyrir aðild sína að málinu. Samkvæmt gögnum málsins liggur hins vegar ekki skýrt fyrir hvernig ríflega fimmtugur kjötiðnaðarmeistari í Breiðholti gat tengst málinu, jafnvel þótt sonur hans hafi verið grunaður um aðild að því, auk þremenninganna sem dæmdir voru.

Guðmundur fékk 800.000 krónur í bætur, eins og venjan er þegar fólk hefur setið saklaust inni. Guðmundur áfrýjaði og Hæstiréttur dæmdi honum nýverið tvær milljónir króna í miskabætur. Dómur Hæstaréttar í máli Guðmundar er sérstæður fyrir þær sakir að þar er íslenska ríkið dæmt fyrir að brjóta gegn þeim ákvæðum stjórnarskrár sem banna hvers kyns pyntingar og niðurlægjandi meðferð borgaranna. Guðmundur stóð uppi atvinnulaus og heilsulaus eftir vistina í klefa númer 5 við Hverfisgötu.

Viðtal við Guðmund má sjá í spilaranum hér að ofan og sömuleiðis viðtal við Elísabetu Ingólfsdóttur, lögfræðing, sem ritaði meistararitgerð um einangrunarvist á Íslandi. Henni er beitt hér í mun ríkari mæli en á Norðurlöndunum.

thoraa's picture
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV