Misskilin ártíð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Misskilin ártíð

12.01.2020 - 06:45

Höfundar

Það er algengur misskilningur að orðið ártíð sé haft um árafjölda frá fæðingu látins fólks. Við slík tækifæri er minnst fæðingardags eða fæðingarafmælis. Orðið ártíð er aftur á móti bæði haft um dánardag fólks og dánarafmæli þess.

Þegar sagt er að ártíð manns sé 10. janúar 2020 er það dánardagurinn. En þegar talað er um þriggja, þrjátíu eða jafnvel þrjú hundruð ára ártíð einhvers – svo dæmi sé tekið – er átt við dánarafmæli. Þá eru þrjú, þrjátíu eða þrjú hundruð ár liðin frá dánardegi hins látna. Þegar aldir eru liðnar frá dánardegi er talað um tveggja, þriggja, fjögurra alda ártíð og þar fram eftir öldunum.