Bandaríska veðurstofan gaf út viðvörun sem var í gildi alla helgina vegna hitabylgjunnar sem gekk yfir austurströnd og miðvesturríki landsins. Borgarstjórinn í New York lýsti yfir neyðarástandi vegna hitans sem komst hátt í fjörutíu stig. Bæði menn og dýr leituðu leiða til þess að kæla sig í kæfandi hitanum. Víða var brugðið á það ráð að koma upp sérstökum kælistöðvum þar sem fólk gat jafnvel dýft sér ofan í pott fullan af köldu vatni.
Í Portúgal hafa hundruð slökkviliðsmanna barist við skógarelda. Eldarnir kviknuðu síðdegis í gær og breiddust hratt út. Sterkir vindar gerðu það að verkum að erfitt reyndist að ná tökum á þeim. Þyrlur og flugvélar voru notaðar við slökkvistarf og portúgalski herinn var sendur til aðstoðar. Fjöldi fólks hefur þurft að flýja eldana.
Skógareldar eru algengir í Portúgal. Þar verður iðulega mjög heitt á sumrin og landið er skógi vaxið. Tugir létust í skógareldum sem geisuðu á sama svæði og nú fyrir tveimur árum.