Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minnkandi bjartsýni gagnvart efnahagslífinu

21.06.2019 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á Norðurlandi eystr
70 prósent landsmanna telja að efnahagsstaða á Íslandi sé góð. Átta prósent aðspurðra telja efnahagsstöðuna vera mjög góða og 63 prósent nokkuð góða. 22 prósent telja stöðuna vera frekar slæma og sjö prósent telja hana mjög slæma. Þeim sem telja efnahagsstöðuna vera góða fækkar hins vegar um tíu prósentustig frá könnun ársins 2018. Þá töldu 80 prósent svarenda ástandið vera nokkuð gott eða mjög gott.

Karlar telja efnahagsstöðuna betri en konur, en 76 prósent karla telja stöðuna vera nokkuð eða mjög góða, samanborið við 64 prósent kvenna.

Yngra fólk telur stöðu efnahagsmála vera verri en eldra fólk. Þrettán prósent svarenda í yngsta aldurshópnum (18-29 ára) sögðu stöðuna vera mjög slæma, en aðeins eitt prósent svarenda í elsta aldurshópnum (68 ára og eldri) telja stöðuna vera mjög slæma.

Svarendur á höfuðborgarsvæðinu telja stöðu efnahagsins betri en svarendur sem búsettir eru utan höfuðborgarsvæðisins. 74 prósent svarenda á höfuðborgarsvæðinu telja stöðuna vera góða, en 64 prósent þeirra sem búa á landsbyggðinni telja að svo sé.

Gildismat á stöðu efnahagsins er talsvert breytilegt eftir því hvaða stjórnmálaflokk fólk kýs.

87 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins telja ástandið vera gott, og 84 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. Aftur á móti telja 51 prósent kjósenda Flokks fólksins og 37 prósent kjósenda Samfylkingar að ástandið sé mjög eða nokkuð slæmt.

Könnunin var unnin af MMR dagana 4. til 9. apríl. Alls svöruðu 926 handahófsvaldir einstaklingar eldri en 18 ára könnuninni úr hópi álitsgjafa MMR.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV