Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minnismerki, fyrirgefning og framtíð Sri Lanka

Mynd: Kristján Guðjónsson / Kristján Guðjónsson

Minnismerki, fyrirgefning og framtíð Sri Lanka

18.05.2019 - 09:00

Höfundar

Við sitjum um borð í lest sem rennur yfir flatlendi Norður-Sri Lanka. Brennandi heit sólin glampar á blá vatnslónin, þurrt sandblásið landslagið þýtur hjá opnum glugganum. Pálmatré raða sér upp eftir sjóndeildarhringnum. Þarna er ósköp fátt sem gefur til kynna að það séu aðeins tíu ár síðan hér stóð yfir blóðug borgarastyrjöld. Það var þann 18. maí 2009 sem forseti Sri Lanka tilkynnti að uppreisnarher Tamíl-tígranna hefði verið gjörsigraður og leiðtogi þeirra, V. Prabhakaran, væri fallinn.

Í meira en aldarfjórðung hafði miskunnarlaust stríð verið háð á þessari litlu paradísareyju rétt suðaustur af suðurodda Indlands.

Ég er á bakpokaferðalagi ásamt Birnu kærustunni minni, í tæpan mánuð á Sri Lanka, sem er nú orðin hálfgerð ferðamannaparadís, áfangastaður ársins 2019, segir ferðabókaframleiðandinn Lonely Planet. Við höfum yfirgefið yfirfullar suðurstrendurnar, sörfið og safaríjeppana, farin úr alfaraleið og stefnum til Jaffna, nyrstu borgar Sri Lanka, en það var einmitt á þessu svæði sem lestin rennur svo silalega yfir sem helstu bardagar stríðsins voru háðir.

Blóðug og flókin saga

Það er hægara sagt en gert að ná utan um atburðarásina, hvað þá uppruna og ástæður borgarastríðsins á Sri Lanka. En í stuttu máli má segja að stærsta þjóðarbrotið á eyjunni, Singalar sem eru um 80 prósent íbúa, hafi ekki talið sig njóta sammælis eftir að nýlendustjórn Breta lauk árið 1948. Singalskir stjórnmálamenn nýttu sér þessa auknu þjóðernishyggju sem er einnig tengd við trúarlegar hugmyndir um mikilvægi yfirráða singalskra búddista á eyjunni. Smám saman var minnihlutahópum á Sri Lanka ýtt út úr opinberum stofnunum og stöðum, singalska var gerð að ríkismáli og búddismi að ríkistrúarbrögðum.

Önnur þjóðarbrot og trúarhópar urðu stöðugt undirokaðri og óánægjugremjan meðal stærsta minnihlutahópsins, Tamíla sem flestir eru hindúar, sprakk út í ofbeldi. Singalar svöruðu í sömu mynt og yfirvöld gerðu lítið til að stöðva morðóðan múginn sem réðst á og myrti óbreytta Tamíla. Í kjölfarið risu upp nokkrir hópar sem vildu að norðurhlutinn, þar sem Tamílar voru í meirihluta, klyfi sig frá hinum hluta eyjunnar. Róttækastur og ofbeldisfyllstur var hópur sem kallaði sig Sjálfstæðistígra hins tamílska Eelam, LTTE eða Tamíl-tígrana. Frá 1983 til 2009 börðust þeir við ríkisher Sri Lanka með ýmiss konar skæruhernaði. Með fjárhagslegum stuðningi brottfluttra srílankskra Tamíla tókst þeim að byggja upp öflugan her, taka landsvæði og á tímabili reka sitt eigið þjóðríki á norðurhluta eyjunnar. Og þar börðust þeir til síðasta manns í lokaorrustunum vorið 2009.

Meira en hundrað þúsund manns létust í stríðinu. Fólk missti heimili sín, var neytt til að berjast, hryðjuverk framin, almennir borgarar myrtir, Singalar og Tamílar. Báðar fylkingar gerðust sekar um hryllilega grimmd og stríðsglæpi. En 18. maí 2009 þögnuðu byssurnar loksins. Og nú er 10 ár frá stríðslokum. En hvernig minnist maður slíkrar sögu? Hvernig minnast Sri Lanka-búar atburðanna nú áratug eftir stríðslok?

Minnisvarðar um hetjudáðir hersins

Sundursprengd hús og sprengjugígar eru að mestu leyti horfin en á undanförnum árum hafa æ fleiri opinber minnismerki um stríðið verið reist á norðurhluta Sri Lanka. Á veginum yfir Fílaskarðið, landbrú sem liggur að Jaffna-skaganum eru minnisvarðar sem Singalar víðs vegar um landið heimsækja. Rútur fullar af pílagrímum úr suðri keyra langar leiðir til þess að sjá ummerkin og minnast hetjudáða hersins í baráttunni við blóðþyrsta hryðjuverkamennina.

Við keyrum frá Jaffna með þriggja hjóla leigubúl, tuktuk, að minnisvarðanum. Þetta er nokkurra metra hár rauðleitur bronsskúlptúr sem sýnir nokkrar hendur sem lyfta tedropalaga eyjunni upp til himins, líklega tákn um mikilvægi þess að íbúarnir standi saman til að stuðla að framgangi Sri Lanka, og tvö blóm stingast upp úr skuggamyndinni. Þarna eru stórir hópar fólks sem hafa komið með rútum, Singalar, en ekki einn einasti erlendur ferðamaður. Ungt fólk með kjánaprik, eldri konur með sólhlífar, fjölskyldur virða fyrir sér minnisvarðann og hlusta forvitin á leiðsögn einkennisklædds hermanns.

Nokkur hundruð metra í burtu er annar vinsæll áfangastaður pílagrímanna, upplýsingamiðstöð, lítið hof þar sem hægt er að leggja blóm við myndir af föllnum ríkishermönnum og aðalaðdráttaraflið sem er brynvarinn trukkur sem ku hafa verið fullur af sprengjuefni og notaður af Tamíl-tígrunum til árása. Það gleymist seint hvernig tígrarnir beittu hryðjuverkum gegn óbreyttum borgurum, her og stjórnmálamönnum - voru meðal annars brautryðjendur þegar kom að sjálfsmorðssprengjuárásum.

Syrgja hina látnu í hljóði

En það kemur hins vegar hvergi fram að það voru sigurvegarar stríðsins sem beittu verstu meðulunum. Ekki aðeins hvarf fjöldi blaðamanna og ýmiss konar stjórnargagnrýnenda á meðan stríðið stóð yfir og eftir stríðslok, heldur féllu tugþúsundir óbreyttra Tamíla fyrir sprengjum og byssukúlum stjórnarhersins á síðustu vikum stríðsins.

Eftir að eftirlitsmenn alþjóðlegra friðarsamtaka og mannréttindasamtaka höfðu flúið átakasvæðið á vordögum 2009 var umkomulausum Tamílum smalað á æ afmarkaðri svæði og þeim lofað öruggu skjóli, griðarstað - no fire zone, var það kallað. En svo var sprengjunum og skotum látið rigna yfir þá. Tugir þúsunda almennra borgarar létu lífið. Hversu margir er ómögulegt að vita, enda hafði heimurinn þá þegar litið undan.

En hér á Srí Lanka, eins og annars staðar er sagan er skrifuð af sigurvegurunum og á þetta er ekki minnst á hinum opinberu minnisvörðum. Tuk-tuk bílstjórinn staðfestir það sem okkur grunaði: „Enginn Tamíli myndi nokkurn tímann heimsækja slíkt minnismerki.“ Tamílar þurfa að syrgja hina látnu í hljóði.

Mynd með færslu
Brynvarinn trukkur frá Tamíl tígrunum

Er hægt að vera ópólitískur ferðamaður?

Við veltum fyrir okkur hvort við ættum að keyra til Mullativu, á strandlengjuna þar sem síðustu og mannskæðustu fjöldamorð ríkishersins fóru fram. Mér finnst við verða að fara en Birna er ósammála. Við rökræðum um siðferði slíkrar ferðamennsku. Er það ekki ósmekklegt og vanvirðing við heimamenn að heimsækja bæinn í hálfgerðum helfarar-túrisma, taka sjálfsmyndir með gapandi opið svöðusár samfélagsins í bakgrunni, eða er það skylda okkar að bera hryllingnum vitni? Er siðsamlegra að loka augunum? Er hægt að vera ópólitískur ferðamaður á svona stað?

Á netinu hafi ég lesið um síðustu minjar sjóhers Tígranna í Mullativu, kafbátagrafreit sjávar-tígranna, sem áhugavert gæti verið að heimsækja.  „Þarna er ekkert lengur að sjá þarna“ segir bílstjórinn okkur og við skynjum að hann vilji síður leggja á sig klukkutímaaksturinn. Við áttum okkur ekki á því hvort hann hafi bara illan bifur á stríðsáhuga okkar, eða hvort hann sjái þannig fram á skjótfengari gróða. „Allt farið. Enginn tilgangur að fara þangað“ reynir hann að sannfæra okkur. En er það ekki einmitt áhugavert, velti ég fyrir mér, hvernig minningunni og gleymskunni er leikstýrt af hernum og yfirvöldum.

Eflaust munu brátt rísa þarna fullkomnar ferðamannastrendur, sérhannaðar fyrir Pinterest og Instagram. Líklega, eins og svo mörg lúxushótel og ferðamannastaðir á svæðinu, í eigu hersins eða fyrrum herforingja. Verðlaun fyrir hetjudáðir á vígvellinum. Og þegar maður sötrar kokteil á hótelbarnum á þakinu og nýtur blóðrauðs sólarlagsins, er maður þá ópólitískur ferðamaður?

Fyrirgefning og sættir

Fyrstu árin eftir 2009 var stríðslokadeginum 18. maí fagnað af singölum sem sigurdegi og haldnar miklar stríðssýningar á meðal tamílum var bannað að halda viðburði til að minnast látinna. Hátíðarhöldin hafi minnkað eftir að stríðsforsetinn Mahinda Rajapaksa tapaði í kosningum 2015 en dagurinn er enn eldfimur. Leiðtogar Tamíla hvöttu til þess í fyrra að 18. maí skyldi endurnefndur „dagur tamílsku þjóðarmorðanna“.

Eftir því sem maður keyrir um hinn tamílska hluta Srí Lanka upplifir maður ískyggilega tilfinningu, einhver undirliggjandi óþægindi. Þó að augljóslega sé búið að setja mikla peninga í vegi og aðra innviðauppbyggingu er ástandið óeðlilegt. Hermenn og herbúðir eru áberandi. Í kringum Mullativu er einn hermaður fyrir hverja tvo íbúa. Hermennirnir eru að langmestu leyti Singalar. Tala annað mál og hafa önnur trúarbrögð en íbúarnir. Þetta er hernumið svæði. Enn þann dag í dag kvarta íbúar yfir að land sem herinn tók af þeim undir lok stríðsins hafi ekki verið skilað. Í srílankískum fjölmiðlum les ég um mótmæli íbúanna sem krefjast þess að fá landið sitt aftur. Ef ferðamannaiðnaðurinn heldur áfram að blómstra gæti landrýmið þó hreinlega reynst hernum of dýrmætt til að skila því til fyrri eigenda.

Það blasir við manni hvar sem maður kemur, að stríðið er óuppgert. Engin svör hafa fengist um þann fjölda einstaklinga sem hurfu sporlaust á meðan stríðinu stóð og eftir, engar rannsóknir óháðra aðila hafa farið fram á stríðsglæpum stjórnarhersins á óbreyttum tamílskum borgurum, enginn hefur þurft að sæta ábyrgð, og margir þeirra sem fyrirskipuðu árásir á spítala og svæði þar sem óbreyttir borgarar leituðu skjóls, eru enn í æðstu stöðum srílankískra hersins - ef þeir eru ekki komnir á fullt í ferðamannabransanum. Þrátt fyrir mikið tal um sættir, reconcilition, hefur nýr forseti landsins lítið gert til að þoka málum áfram. Singalar halda áfram að byggja búddísk hof í hinu hindúska norðri og fagna hetjudáðum hers sem tamílar líta á sem kúgara og morðingja. Fjöldi frjálsra félagasamtaka reynir sitt besta til að skapa sættir milli hinna ólíku samfélaga á eyjunni. En tilraunirnar virka í besta falli máttlausar þegar ríkisvaldið gerir lítið til að skilja eða friða við tamílska þegna sína.

Yfirlætislegt skilti við jaðar einna herbúðanna á norður Srí Lanka grípur athygli mína og virkar óþægilega táknrænt: No future without foregiveness, stendur skrifað stórum stöfum - Engin framtíð án fyrirgefningar. En hvernig er hægt að fyrirgefa, spyr maður sig, þegar engin er eftirsjáin eða iðrunin?

Mynd með færslu
Skilti við jaðar herstöðvar á Jaffna-skaganum á norður Srí Lanka

Framtíð sem rímar sorlega við fortíðina

Á meðan gremjan gerjast undir yfirborðinu í norðausturhlutanum fæðast ný átök annars staðar í landinu. Vinir okkar, ung singölsk hjón frá Colombo eru ekkert sérstaklega bjartsýn. Þau segja singala-búddíska þjóðernishyggju alls ekki vera í rénun - og eins og öll popúlísk þjóðernishyggja krefjist hún ávallt óvina. Gjörsigur á Tamíl tígrunum hefur skilið eftir sig tóm í hatursretorík öfgafullra búddista og singalíska þjóðernissinna. Og inn í það tóm hefur íslam nú verið troðið.

Múslimar hafa búið á Srí Lanka frá sjöunda öld, að langmestu leyti í sátt og samlyndi við landa sína, kristna, hindúa, búddista. En nú fyrst er vera þeirra á eyjunni gerð tortryggileg. Falsfréttir um djöfulleg samsæri múslima gegn singölum hafa grasserað á samfélagsmiðlum undanfarin ár og hatursglæpir gegn þeim færast í aukana. Hryðjuverkaárásirnar um páskana eru olía á þann eld. Yfirvöld hafa gripið á það ráð að setja útgöngubann og loka á samfélagsmiðla til að koma í veg fyrir að múgur Singala taka lögin í eigin hendur og ráðist gegn múslimum.

Þann 18. maí eru 10 ár frá lokum blóðugrar borgarastyrjaldar á paradísareyjunni. Fortíðin á Srí Lanka er sorgleg - og hennar ber að minnast - en minnismerkin á norðurhluta eyjunnar gefa þó sterka vísbendingu um hvernig framtíðin virðist dæmd til að endurtaka fortíðina.