Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Minna samkomuhald bitnar á innanlandsflugi

Mynd með færslu
 Mynd:
Afbókanir á flugferðum innanlands, vegna viðburða sem aflýst hefur verið síðustu daga, hefur mikil áhrif á rekstur Air Iceland Connect. Fækkun erlendra ferðamanna sömuleiðis. Framkvæmdastjórinn segir viðbúið að breyta þurfi áætlun félagsins, en ekkert liggi fyrir um uppsagnir starfsfólks.

Undanfarið hefur fjölda viðburða verið aflýst um allt land, ráðstefnum, íþróttamótum og alls kyns fundum. Auk þess hefur fólk að eigin frumkvæði dregið mjög úr aðsókn á viðburði.

Fólk að hætta við og breyta ferðaáætlunum

Fjöldi fólks fer milli landshluta með flugi og Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, segir þetta hafa mikil áhrif á félagið. „Fólk sem hefur áætlað að ferðast út af slíkum viðburðum er auðvitað að hætta við og breyta sínum ferðaáætlunum. Meirihluti okkar farþega er fólk sem er að erindast í ýmsum erindagjörðum."

Flugbann til Bandaríkjanna hefur áhrif  

Fækkun erlendra ferðamann hafi líka áhrif, en hvort það séu skammtímaáhrif eða áhrif til lengri tíma eigi eftir að koma í ljós. „Þetta gerist nú mjög hratt núna dag frá degi. Þannig að við áttum ekki vona á því í gær að ferðalög Bandaríkjamanna eða ferðalög Evrópubúa ti Bandaríkjanna yrðu stöðvuð með þessum hætti. Þannig að það er erfitt að segja til með lengri tíma, en þetta hefur klárlega áhrif á okkur." 

Gæti þurft að fækka ferðum og minnka sætaframboð

Hann segir engar ákvarðanir hafi verið teknar um sérstakar aðgerðir. Það sé viðbúið að breyta þurfi flugáætlun, en einnig komi til greina að nýta það að félagið er með tvær stærðir flugvéla í rekstri. „Þannig að við getum breytt framboðinu á fjölda sæta með því að nýta minni vélina okkar meira. Nú svo getur komið til greina að minnka eitthvað tíðni á milli áfangastaða líka. Óttastu að þið þurfi að grípa til uppsagna. Það liggur ekkert fyrir á þessarri stundu," segir Árni.