Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Minna af loðnu en í síðustu mælingu

20.02.2020 - 12:49
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Minna sást af loðnu í yfirstandandi loðnuleiðangri en þeim sem farinn var fyrr í mánuðinum. Loðnumælingum sex skipa lauk að mestu í nótt og aðeins á eftir að kanna lítið svæði út af Húnaflóa.

Þó endanlegar niðurstöður liggi ekki fyrir telur Hafrannsóknastofnun að magn hrygningarloðnu sé vel undir síðustu mælingu. Þá var talið að 150 þúsund tonn af loðnu vantaði til að hægt væri að mæla með veiðum.

Niðurstaðan sé sett fram með þeim fyrirvara að smásvæði sé enn ókannað og þetta sé frumúrvinnsla gagna. Þó séu taldar hverfandi líkur á að niðurstaðan breytist verulega úr þessu.