Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Minjasafnið, Nonnahús og Listasafnið fá styrk

27.03.2020 - 16:13
Mynd með færslu
Akureyri í vetrarbúningi. Mynd:
Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús og Listasafn Akureyrar fá styrki úr árlegri úthlutun úr safnasjóði. Safnstjóri segir styrkinn auka aðgengi almennings að gagnasafni safnsins.

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur úthlutað úr aðalúthlutun safnasjóðs 2020. Heildarstyrkupphæð er 177.243.000 krónur. 200 umsóknir bárust sjóðnum í ár. 111 fá styrki til eins árs og þrettán fá Öndvegisstyrk til þriggja ára. Þrjú söfn á Akureyri fá styrk í ár.

Skrá gripi og ljósmyndir í gagnagrunn

Minjasafnið á Akureyri og Nonnahús hljóta 15 milljónir króna. Minjasafnið hlýtur Öndvegisstyrk að upphæð 9 milljónir króna til næstu þriggja ára sem mun nýtast í að skrá gripi og ljósmyndir safnsins í gagnagrunninn sarpur.is en safnið á yfir þrjár milljónir ljósmynda og tæplega 36.000 muni. Þetta kemur fram á Akureyri.is.

Þá var sex milljónum króna úthlutað til fjögurra verkefna; uppsetningu á nýrri sýningu Jóns Sveinssonar, safnfræðslu í Leikfangahúsinu á Akureyri, útgáfu á bók með íslandskortum Schulte og samstarfsverkefni með Smámunasafninu í Eyjafjarðarsveit um skráningu á gripum þess. 

„Ég er ákaflega stoltur af þessum styrkjum sem eru viðurkenning á öflugu starfi starfsfólks Minjasafnsins á Akureyri. Öndvegisstyrkur til þriggja ára breytir miklu í skipulagningu starfsins hjá okkur og eykur aðgengi almennings að gagnasafni safnsins. Þá er ekki síður mikilvægt að geta gert nýja sýningu í Nonnahúsi", segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins. 

11 milljónir til Listasafnsins

Þá fékk Listasafnið á Akureyri 11 milljónir. Öndvegisstyrk upp á 6,3 milljónir króna fyrir árlegu sýninguna Sköpun bernskunnar. 2,4 milljónir króna fyrir þremur einkasýningum þeirra Brynju Baldursdóttur, Heimis Björgúlfssonar og Jónu Hlífar Halldórsdóttur. Þá fékk það rúmar tvær milljónir fyrir yfirlitssýningu á verkum Þorvaldar Þorsteinssonar, Lengi skal manninn reyna. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV