Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Milljónum stolið af erlendu launafólki

13.08.2019 - 14:59
Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Mynd:
Atvinnurekendur stela árlega mörghundruð milljónum úr vösum starfsfólks síns og beinast brotin mest að ungu fólki og fólki af erlendum uppruna. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþýðusambands Íslands um umfang brota á vinnumarkaði. Drífa Snædal, forseti sambandsins, segir nýja stéttaskiptingu vera að festa sig í sessi. Bráðnauðsynlegt sé að stjórnvöld standi við loforð sem þau gáfu í tengslum við kjarasamninga í vor og herði viðurlög við brotum. Atvinnurekendur eigi ekki að geta grætt á stuldi.

Skörp lína milli hópa

Sambandið kveður í skýrslunni fast að orði, notar orðið launaþjófnaður óspart í stað kjarasamningsbrota. Aukið vinnustaðaeftirlit og fræðsla hefur að sögn Drífu orðið til þess að erlent starfsfólk leitar frekar til stéttarfélaga en brotum gegn því hefur ekkert fækkað. Í skýrslunni segir að brotin beinist gegn þeim hópum sem síst þekki réttindi sín; ungmennum og fólki af erlendum uppruna. Aðrir hópar sleppi að mestu.

„Margt í þessari skýrslu staðfestir það sem við höfum verið að sjá. Þetta staðfestir líka þessa skörpu línu, þessa nýju stéttskiptingu í rauninni. Útlendingar, ungt fólk og fólk í lausum ráðningarsamböndum annars vegar, hins vegar fólk með fasta vinnu, yfir meðaltekjum og fætt á Íslandi sem verður töluvert minna fyrir launaþjófnaði og brotum á vinnumarkaði.“ Drífa segir skilin milli hópanna hafa orðið skarpari í uppsveiflu síðustu ára en að veruleiki þeirra sem eru í hópnum sem á hallar hafi ekki verið rannsakaður mikið. Sambandið telur skiptinguna mjög varhugaverða, hún geti fest í sessi stéttaskiptingu og jaðarsetningu, ekki bara á vinnumarkaði heldur í samfélaginu öllu.  

Félagsmenn sviknir um hundruð milljóna

Mikill fjöldi fólks hefur flutt hingað til lands og nú er svo komið að fimmtungur launafólks á landinu er af erlendum uppruna. Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar nær ekki til þessa hóps og ekki heldur spurningakannanir Gallup. Til að átta sig á stöðu hans greindi ASÍ  launakröfur fjögurra stórra aðildarfélga með tilliti til bakgrunns félagsmanna. Í fyrra kröfðust félögin þess 768 sinnum að atvinnurekendur greiddu félagsmönnum þeirra samtals 450 milljónir króna. Algengast var að hver greiðsla næmi rúmlega 260 þúsund krónum. Helmingur málanna varðaði erlent starfsfólk. Það er hátt hlutfall í ljósi þess að einungis fjórðungur félagsmanna er af erlendum uppruna. Af þessu mátti ráða að þessi hópur lenti frekar í launaþjófnaði en aðrir og könnun sem ASÍ lét leggja fyrir úrtak erlendra félagsmanna og byggði á könnun sem Gallup lagði fyrir ungt fólk, renndi frekari stoðum undir það.

Hælisleitendur utan kerfis

Launakröfurnar 768 eru bara toppurinn á ísjakanum, Drífa segir málin margfalt fleiri, það þurfi sjaldnast að fara í hart en þjófnaðurinn sé skeður, þó að vinnuveitandi leiðrétti laun fólks eftir að verkalýðsfélagið hefur samband. 
Í skýrslunni segir að brotin snerti þúsundir einstakling. Þau felist í stórfelldum þjófnaði, illri meðferð og því að reglur um aðbúnað og öryggi séu virtar að vettugi. Þegar verst lætur verði framgöngu fyrirtækja ekki lýst nema sem nauðungarvinnu eða vinnumansali. 

Greining ASÍ nær ekki til allra sem kann að vera brotið á á vinnumarkaði. Drífa nefnir hælisleitendur sérstaklega. „Það er landlægt vandamál að hælisleitendur eru fengnir í svarta vinnu hér á Íslandi og við vitum mýmörg dæmi þess. Það er erfitt að aðstoða þetta fólk því það er ekki með kennitölu og stendur í raun utan kerfis.“ 

Ásetningur og þar með þjófnaður

Í skýrslunni er ítrekað talað um launaþjófnað, Drífa segir að með því séu samtökin að kalla hlutina réttu nafni. „Launaþjófnaður er ásetningur um að stela launum. Hér á Íslandi gerum við kjarasamninga um hvað vinnuframlag fólks kostar og ef fólk veitir það framlag án þess að fá greitt fyrir þá er það launaþjófnaður og bara eins gott að kalla það það.“ 

Þeir sem telja á sér brotið leita til félaganna

Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Um fimmtungur launafólks á Íslandi er af erlendum uppruna.

En hvað er til ráða? Umræðan um brot gegn starfsfólki af erlendum uppruna er ekki ný? Eftirlit hefur verið aukið og það er ítrekað búið að lofa úrbótum og koma upp samráðsvettvöngum. Hefur það ekki virkað? „Ég held reyndar að ástæðan fyrir því að fólk kemur til stéttarfélaganna yfir höfuð sé mjög gott eftirlit. Stéttarfélög víða um land eru dugleg að fara á vinnustaði og upplýsa fólk. Þannig kemur það til stéttarfélaganna og þannig vitum við af brotunum. Það hefur sannarlega skilað árangri. Þetta er svona eins og með önnur brot að ef maður leitar þau ekki uppi og réttir hjálparhönd þá verða þau aldrei upplýst.“ 

Drífa telur stéttarfélögin hafa náð utan um vandann, flestir sem telji á sér brotið leiti nú til þeirra. „Svipað hlutfall útlendinga og verður fyrir launaþjófnaði kemur til okkar. Við höfum alltaf óttast það að ákveðnir hópar séu hræddir við að leita til stéttarfélaga en sá ótti virðist ekki vera á rökum reistur.“ 

Áhyggjufullir atvinnurekendur biðja um aukið eftirlit

Mynd með færslu
 Mynd:
Mest er um brot í ferðaþjónustu og mannvirkjageiranum.

En þrátt fyrir að málin skili sér inn á borð stéttarfélaga virðast óprúttnir atvinnurekendur jafn skæðir og áður. „Margir eru það en síðan vil ég líka segja frá því að það eru ýmsir atvinnurekendur sem koma til okkar og biðja okkur að herða eftirlitið. Þeir segjast vera að verða undir í samkeppni við fyrirtæki sem eru að undirbjóða og greiða óeðlilega lág laun. Þetta er þeim atvinnurekendum sem vilja standa sig í stykkinu líka í hag, að við herðum eftirlit og tökum á þessu með röggsemi og myndarleika.“

Skýrslan sýni fram á mikilvægi þess að stjórnvöld láti verkin tala

Stjórnvöld kynntu í apríl aðgerðir til að liðka fyrir gerð kjarasamninga, nokkrar þeirra lutu að því að uppræta brotastarfsemi á vinnumarkaði. Stjórnvöld sögðust ætla að ráðast í markvissar aðgerðir gegn félagslegum undirboðum, taka á kennitöluflakki og auka refsiheimildir, lögfesta keðjuábyrgð í opinberum innkaupum og bæta aðstoð og vernd þeirra sem lenda í vinnumansali eða nauðungarvinnu. „Það er engin tilviljun að við lögðum töluverða áherslu á þetta í kjaraviðræðunum í apríl og þetta var stór hluti af yfirlýsingu stjórnvalda. Nú er það okkar að fylgja því hraustlega eftir,“ segir Drífa. „Nú er verið að ræða útfærslur á þessu í nokkrum nefndum og að sjálfsögðu höldum við áfram að þrýsta á að þetta verði eins skilvirkt og árangursríkt og mögulegt er. Þessi skýrsla sem við erum að birta núna skýrir af hverju það er bráðnauðsynlegt að fara í þessar aðgerðir, efla eftirlit og samræma það og tryggja að stofnanir hafi raunhæf viðurlög við því þegar þau vita að brot eiga sér stað.“ 

Það þurfi að binda í lög hörð viðurlög og sektargreiðslur þannig að fyrirtæki hagnist aldrei á brotastarfsemi heldur beri af henni mikinn fjárhagslegan skaða. „Við höfum verið að tala um sektargreiðslur því það á ekki að borga sig að stela launum af fólki.“

Lítið reynt á keðjuábyrgð

Það er mat sambandsins að aukið vinnustaðaeftirlit og stórefld upplýsingamiðlun dugi hvergi nærri til þess að uppræta brotastarfsemina. Þá segir Drífa lítið hafa reynt á lög um keðjuábyrgð, enn sem komið er. „Þau voru síðast uppfærð í vor þar sem keðjuábyrgð var sett inn í lög um opinber innkaup en við vonumst til þess að þau gagnist okkur til framtíðar og verði til þess að þeir sem kaupa þjónustu undirverktaka fylgist betur með þeim, ella verði kaupendafyrirtækin gerð ábyrg.“ 

Hægt að uppræta brotin

Drífa telur þrátt fyrir allt vel hægt að uppræta brot á íslenskum vinnumarkaði. „Við höfum alla möguleika til að bregðast vel við og vera ansi góð í því að stöðva launaþjófnað og brot á vinnumarkaði. Við erum einangrað land með sterk stéttarfélög, við erum með öflugt fagfólk í rannsóknum og greiningu þannig að ef okkur ber gæfa til að samræma krafta okkar og samræma eftirlit ættum við að geta komið í veg fyrir þessi ömurlegu brot á vinnumarkaði.“