Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Milljónir féllu í afrískri heimsstyrjöld

28.01.2018 - 15:35
Mynd: epa / epa
Mannskæðasta styrjöld heims frá seinni heimsstyrjöld var háð í Afríkuríkinu Austur-Kongó á árunum 1998 til 2003. Talið er að dauða allt að fimm milljóna megi reki til stríðsins og áhrifa þess. Það er stundum kallað „afríska heimsstyrjöldin“ þar sem níu Afríkuríki og ótal vígahópar tókust á, en átökin snérust ekki síst um að græða á auðlindum Kongó.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um sögu Kongó. Þetta er þriðji þáttur af þremur. Fyrri þættir fjölluðu um nýlendusögu Kongó og fyrstu árin eftir að landið fékk sjálfstæði.

Spilltur einvaldur var besti vinur Vesturlanda 

Einræðisherrann Mobutu Sese Seko stjórnaði Kongó, eða Saír eins og hann nefndi landið, í 32 ár frá 1965 til 1997. Þrátt fyrir að vera gjörspilltur og einvaldur naut hann lengst af stuðnings Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja, sem álitu hann mikilvægan bandamann í kalda stríðinu.

Hann missti þann stuðning þegar tíundi áratugurinn gekk í garð og kalda stríðinu lauk. Þá hafði Mobutu að auki tekist að gera land sitt svo gott sem gjaldþrota með eyðslusemi og óstjórn, og innviðir ríkisins voru að hruni komnir.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
Mobutu Sese Seko og eftirmaður hans Laurent Kabila.

Þjóðarmorðið barst til Saír 

En það voru atburðir í örlitlu grannríki Saír til austurs sem áttu eftir að leiða til þess að Mobutu tapaði loks völdum: þjóðarmorðið í Ráunda. Frá apríl og fram í júní 1994 slátruðu rúandskir Hútúar mörg hundruð þúsund Tútsum í einum versta hildarleik tuttugustu aldar.

Þjóðarmorðinu lauk þegar uppreisnarfylking Tútsa, RPF, undir stjórn Pauls Kagame lagði undir sig Rúanda. Meira en tvær milljónir Hútúa flúðu þá vestur til Saír — þar á meðal helstu sökudólgar í þjóðarmorðinu.

Í austanverðu Saír risu gríðarstórar flóttamannabúðir, og innan um flóttafólkið fóru þjóðarmorðingjarnir að leggja á ráðin um að ráðast aftur inn í Rúanda og endurheimta völdin.

Mynd með færslu
 Mynd: SÞ
Flóttamannabúðir í Goma í Saír 1994.

Leynileg innrás Rúanda varð Mobutu að falli

Í von um að kveða Hútúana í flóttamannabúðunum í kútinn skipulögðu ný stjórnvöld í Rúanda og bandamenn þeirra í Úganda innrás í Saír í nóvember 1996.

Innrásin var dulbúin sem heimaræktuð kongósk uppreisn gegn einræðisherranum Mobutu Sese Seko, og fyrir henni fór gamall kongóskur uppreisnarmaðurinn, Laurent Kabila, en Rúandamenn voru allt í öllu bak við tjöldin.

Að sjö mánuðum liðnum var her Kabila kominn vestur til Kinshasa, höfuðborgar Saír. Mobutu flúði og lést ekki löngu síðar í útlegð til Marokkó. Kabila tók við sem forseti landsins sem fékk aftur nafnið Kongó. 

epa05801886 Rwandan President Paul Kagame during the 53rd Munich Security Conference (MSC) in Munich, Germany, 18 February 2017. In their annual meeting, politicians and various experts and guests from around the world discuss issues surrounding global
Paul Kagame, forseti Rúanda. Mynd: EPA
Paul Kagame, leiðtogi uppreisnarmanna RPF og svo forseti Rúanda.

Gull, demantar og gróðahyggja

En það slettist fljótt upp á vinskap Kabila og rúandskra stjórnvalda. Þegar Kagame Rúandaforseta varð ljóst að Kabila ætlaði sér ekki að vera meðfærilegur leppur Rúanda réðist hann aftur inn í Kongó í ágúst 1998.

Í þetta sinn áttu enn fleiri Afríkuríki eftir að dragast inn í stríðið og átökin standa mun lengur, í fimm ár. Það var líka flestum stríðandi fylkinga í hag að halda ófriðnum áfram sem lengst,  því stríðið fór fljótlega að snúast aðallega um auðlindirnar miklu sem er að finna í kongóskri jörðu: gull, dementa, koltan, kóbalt og fleiri dýrmæta málma.

Á meðan Kongómenn féllu unnvörpum í bardögum, úr farsóttum og í hungursneyðum af völdum stríðsins græddu Rúanda, Úganda, fleiri ríki og fyrirtæki, á tá og fingri á kongóskum málmum.

Og þó að afrísku heimsstyrjöldinni eigi að hafa formlega lokið 2003 má segja að átökin í Kongó standi í raun enn. 

epa01947501 In this file 18 June 2009 file photo taken in Chudja, Ituri Province in the east of the Democratric Republic of the Congo (DRC) a Congolese artisin mine worker carries gold rich earth out of pit for water processing.  An official report by the
 Mynd: epa
Gullnáma í Kongó 2009.

Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.

Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.