Vestrænir ferðamenn í Hanoi í desember. Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Víetnam segja að ferðaþjónustan þar í landi verði fyrir miklu tekjutapi vegna kórónaveirufaraldursins í Kína. Tapið á þessu ári kunni að nema allt að 7,7 milljörðum dollara, jafnvirði meira en eitt þúsund milljarða króna.
Á síðasta ári komu átján milljónir ferðamanna til Víetnam, um þriðjungurinn frá Kína. Forsvarsmenn í ferðaþjónustu gera ráð fyrir að kínverskum ferðamönnum fækki verulega eða um allt að tvær milljónir, auk þess muni margir aðrir halda sig fjarri þessum heimshluta.
Tólf hafa greinst með kórónaveiruna í Víetnam og hafa stjórnvöld hætt að veita þeim vegabréfsáritanir sem verið hafa í Kína undanfarinn hálfan mánuð.