Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Milljarðar streyma í skattaskjól

22.11.2019 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kastljós
Íslenska ríkið sér á eftir 15 prósentum af ætluðum skatttekjum sínum frá fyrirtækjum hér á landi í skattaskjól og rennur stærsti hlutinn til Lúxemborgar. Þetta kemur fram í nýrri alþjóðlegri rannsókn sem er sú fyrsta sinnar tegundar.

Vísindamenn við Kaupmannahafnarháskóla, Kaliforníuháskóla og Berkeley hafa þróað gagnagrunn sem gerir þeim kleift að áætla þær fjárhæðir sem alþjóðafyrirtæki flytja í skattaskjól út um allan heim. Rannsókn sem þessi er sú fyrsta sinnar tegundar því það er aðeins nýlega sem hagstofur vestrænna ríkja hófu að birta tölulegar upplýsingar um hvar alþjóðafyrirtæki bókfæra hagnað sinn, en þær tölur er ekki að finna í reikningum fyrirtækjanna eða þjóðhagsreikningum.

Risahagnaður Google í Bermúda

Niðurstöðurnar eru nokkuð sláandi því samkvæmt rannsókninni eru um 40 prósent af öllum hagnaði alþjóðafyrirtækja flutt í skattaskjól á ári hverju. Árið 2016 voru það 650 milljarðar dollara og er áætlað að tapaðar skatttekjur vegna þessa séu 200 milljarðar á heimsvísu.

Tilgangurinn með því að flytja hagnaðinn í skattaskjól er einfaldur, að komast undan því að borga skatta í því ríki þar sem raunveruleg starfsemi fer fram. Tekið er dæmi af Google sem bókfærði 23 milljarða tekjur af Google Alphabet í örríkinu Bermúda, þar sem skattprósentan er 0 prósent.

Þýskaland og Frakkland tapa mestu

Gögnin úr rannsókninni eru birt á vefsíðunni missingprofits.world en þar er búið að gera kort sem sýnir stöðu einstakra ríkja. Þar sést að þau ríki sem tapa hvað mest á flutningi hagnaðar úr landi eru Þýskaland og Frakkland en sigurvegararnir eru sjálf skattaskjólin, svo sem Lúxemborg, Írland og Cayman-eyjar, og að sjálfsögðu hluthafar þeirra fyrirtækja sem þetta stunda.

47 milljarðar frá Íslandi árlega

Í gögnunum er að finna tölur um Ísland og samkvæmt þeim fara 15 prósent af ætluðum skatti á hagnað fyrirtækja til skattaskjóla árlega. Alls eru 384 milljónir dollara fluttar héðan til skattaskjóla, andvirði ríflega 47 milljarða króna. Tapaðar skatttekjur vegna þess eru áætlaðar 77 milljónir dollara, eða sem nemur 9 og hálfum milljarði króna. Stærstur hluti hagnaðarins, eða 100 milljónir dollara, fer til Lúxemborgar þar sem skattprósentan er 3 prósent. 96 milljónir dollara fara til skattaskjóla utan ESB, hvort sem það er til Bresku jómfrúareyja, Máritíus eða Singapúr, og 79 milljónir dollara fara til Írlands.