Milljarð þarf til að bjarga Upphafi

02.10.2019 - 19:43
Mynd: RÚV / RÚV
Nýr forstjóri Gamma segir að farið verði ofan í kjölinn á því hvernig eigið fé fjárfestingasjóðs í eigu Gamma þurrkaðist nánast upp eftir að það var endurmetið. Hann segir milljarð vanta inn í verktakafyrirtækið Upphaf til að ljúka framkvæmdum.

Við endurmat á stöðu tveggja sjóða í stýringu hjá GAMMA, GAMMA:Novus og GAMMA:Anglia, kom í ljós að eigið fé í þeim hafði verið verulega ofmetið. Eignir fjárfestingasjóðsins GAMMA Novus voru metnar á 4,4 milljarða króna um síðustu áramót. Tölurnar hafa nú verið uppfærðar og er eigið fé sjóðsins nú metið á 42 milljónir króna. Fyrir endurmat voru sjóðirnir tæplega sautján prósent af eignum í stýringu GAMMA. Valdirmar Ármann, fyrrverandi forstjóri GAMMA lét af störfum um helgina og þá hefur Ingvi Hrafn Óskarsson, sjóðsstjóri GAMMA Novus, sagt upp störfum.

Tryggingafélögin TM, VÍS og Sjóvá hafa fært niður eignir vegna GAMMA:Novus. Þá hefur sjóðurinn haft veruleg áhrif á lífeyrissjóð Vestmannaeyja.

„Það sem mestu munar er endurmat á væntu söluvirði eigna, aðferðir við að núvirða vaxtakostnað félagsins og auk þess sem kostnaðarhækkanir voru vantaldar,“ segir Máni Atlason, forstjóri Gamma.

Verktaki sem starfað hefur fyrir Upphaf, verktakafyrirtæki í eigu GAMMA:Novus, hefur þurft að segja upp á annan tug starfsfólks vegna fjárhagsvandræðanna. Undanfarna daga hafi verið fundir með fjárfestum um stöðuna. Fundur hefur verið boðaður með kröfuhöfum á þriðjudag í næstu viku og þá skýrist hvort takist að afla félaginu fjár til að klára framkvæmdir, hámarka virði eigna og hámarka endurheimtur fjárfesta.

„Við höfum metið það svo að Upphaf þurfi einn milljarð króna af nýju fjármagni til að fjármagna allar framkvæmdir til verkloka. Félagið er nú með um 270 íbúðir í byggingu og framkvæmdir langt komnar í flestum þeirra. Við viljum ljúka þeim og hámarka virði eigna,“ segir Máni. Misjafnt sé hvort framkvæmdir séu í gangi eftir verkefnum.

Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, hefur komið fram að nýir stjórnendur GAMMA kanni nú greiðslur sem runnu frá Upphafi fasteignafélagi til félaga sem tóku þátt í verkefnum sem fasteignafélagið hefur unnið að. Grunur leiki á að ekki hafi verið eðlilega að greiðslunum staðið. „Við tjáum okkur ekkert um það á þessu stigi málsins. Við höfum bara sagt það að þetta mál verði skoðað frá byrjun og hvað fór úrskeiðis. Við munum upplýsa viðeigandi aðila um það,“ segir Máni.

Uppfært kl. 23:12. Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að Ingvi Hrafn Óskarsson væri enn að störfum hjá Gamma Novus. Það er ekki rétt og er hér með leiðrétt.  

 

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi