Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mildi að ekki fór verr segir Þroskahjálp

02.09.2019 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir mildi að ekki fór verr þegar að sex ára drengur með einhverfu sat fastur í rútu klukkutímum saman. Nauðsynlegt sé að fara yfir gæðastjórnun á þjónustu við fatlað fólk.

Sagt var frá því í fréttum RÚV í gær að mistök starfsfólks frístundaheimilis fyrir börn með sérþarfir, hafi orðið til þess að sex ára drengur með einhverfu, sat aleinn læstur inni í rútu í meira en þrjár klukkustundir. Vísir greindi fyrst frá.

Bryndís segir að málið sýni að þörf sé á fara yfir verkferla og gæðastjórnun á allri þjónustu við fatlað fólk. „Við erum oft búin að fá fréttir á undanförnum árum um að svona gerist í þjónustu við fatlað fólk og það þarf virkilega að taka til hendinni og fara yfir verkferla og gæðastjórnun á því hvernig þessi þjónusta er veitt,“ segir Bryndís. „Svona á bara ekki að geta komið fyrir, við erum að tala um mjög viðkvæman hóp, sem eru fötluð börn, sem þurfa mikinn stuðning og það þarf að vera alveg sérstakt utanumhald um þau.“

Sat fastur í bílbeltinu allan tímann

Þegar drengurinn loks fannst í rútunni var hann enn spenntur í bílbeltið. Hann hafði hvorki fengið vott né þurrt klukkutímum saman. Bryndís segir þetta grafalvarlegt. „Það er bara guðs mildi að ekki fór verr, vegna þess að við þekkjum dæmi þess að börn eru skilin eftir í bílum og þau hreinlega deyja, þannig að þetta er mjög alvarlegt, að svona geti komið fyrir,“ segir Bryndís. Foreldrar fatlaðra barna verði að geta treyst því að öryggi barna þeirra sé tryggt bæði í skóla og í dagvistun.

Að sögn framkvæmdarstjóra frístundaheimilisins fór starfsmaður ekki eftir verkferlum þegar verið var að flytja börnin milli Klettaskóla og frístundaheimilisins Guluhlíðar, og því fór sem fór. „Ég gef mjög lítið fyrir þessar útskýringar, að það hafi einhverjir verkferlar farið úrskeiðis,“ segir Bryndís. „Það þarf að vera hönd í hönd þjónusta - þú berð ábyrgð á barni og þú lítur ekki af því fyrr en þú ert búinn að koma því í hendurnar á næsta aðila sem tekur við ábyrgðarhlutverkinu. Þarna er skólinn með ábyrgð um morguninn, frístundin eftir hádegi, og greinilegt að eitthvað klikkaði þarna í því að skila barninu hönd í hönd.“