Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Míla í hart við GR: Blekkingar og rangfærslur

Mynd með færslu
 Mynd: Gagnaveita Reykjavíkur
Míla hyggst leggja fram formlega kvörtun til Neytendastofu vegna þess sem fyrirtækið kallar vísvitandi rangfærslur og blekkingar Gagnaveitu Reykjavíkur (GR).

 

Grunnt hefur verið á því góða milli Mílu og Gagnaveitunnar og hafa fyrirtækin ítrekað deilt á opinberum vettvangi, nú síðast í gær þegar Gagnaveitan sendi frá sér tilkynningu og sakaði Mílu um að aftengja og jafnvel fjarlægja ljósleiðaratengingar frá Gagnaveitunni. Var vísað í úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) þess efnis.

Gagnaveitan hyggist safna upplýsingum um þau heimili þar sem búið var að aftengja ljósleiðarainntak fyrirtækisins.

Segja framsetningu Gagnaveitunnar villandi

Míla svarar með harðorði yfirlýsingu þar sem Gagnaveitan er sökuð um rangfærslur og blekkingar. Þar segir að Gagnaveitan hafi gengið frá þúsundum tenginga í húsum á höfuðborgarsvæðinu með ólögmætum hætti og hafi Míla þurft að greiða úr þeim ólöglegu tengingum.

Þau mál sem PFS hafi eingöngu fjallað um inntak ljósleiðara í kjallara fjölbýlishúsa. Gagnaveitan hafi hins vegar tengt niðurstöðurnar við ljósleiðarabox sem eru inni í íbúð hjá notendum, sem PFS hafi ekki fjallað um. „Blekking GR felst í að láta notendur halda að ákvörðun PFS, sem fjallar um frágang í inntaki í kjallara, eigi á einhvern hátt líka við um box inni í íbúð notanda. Þessi vísvitandi rangfærsla er til þess fallin að kasta rýrð á vörumerki Mílu sem samkeppnisaðila GR og Míla mun senda formlega kvörtun til Neytendastofu,“ segir í tilkynningu Mílu.

Er rifjað upp að Neytendastofa hafi í þrígang úrskurðað Gagnaveituna brotlega gegn lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu sem sé ámælisverð framganga af hálfu opinbers félags.

Vara við lögnum Gagnaveitunnar

Í þessu tiltekna máli segir Míla að í sumum tilfellum verði ekki hjá því komist að aftengja ljósleiðarabox hjá notendum. Sums staðar hafi Gagnaveitan lagt ólöglegar lagnir og annars staðar sé ekki pláss fyrir tvö ljósleiðarabox. Þegar svo háttar hafi Gagnaveitan einnig þurft að fjarlægja box frá Mílu.

Míla sér einnig ástæðu til að vara húseigendur sérstaklega við frágangi innanhúslagna á vegum Gagnaveitunnar. „Þá er full ástæða til þess að brýna fyrir húseigendum að hafa varann á þegar kemur að frágangi innanhússlagna á vegum GR. Mikilvægt er að krefjast þess að frágangur GR sé í samræmi við reglur því húseigandinn ber ábyrgð á lögninni og mun þurfa að bera kostnaðinn ef þarf að lagfæra hana.“