Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Miklum lokunum vegna eldgosa hætt

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eftir á að hyggja var víðfeðm lokun á flugsvæðum vegna gossins í Eyjafjallajökli óþarfi. Nýjar rannsóknir og breyttar reglur valda því að ekki verða sett eins ströng flugbönn vegna gosösku. Þetta segja verkfræðiprófessorar og fyrrverandi flugmálastjóri.

Ef flugbann þá ekki eins strangt

Segja má að allt flug heimsins hafi farið á hvolf í Eyjafjallajökulsgosinu 2010. Flug féllu niður, var frestað eða flugleiðum breytt. Bíðandi flugfarþegar þurftu á allri sinni þolinmæði að halda. Og vegna flugbannsins varð orðið Eyjafjallajökull mesti tungubrjótur ársins í ljósvakamiðlum.  
„Rannsóknir hafa sýnt það að lokanir eru ekki nauðsynlegar í raun og veru sko fyrir gos af þessari stærð, “ segir Jónas Elíasson rannsóknarprófessor við Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands. Hann rannsakaði gosmökkinn í Eyjafjallajökuls- og Grímsvatnagosum og í fyrrnefnda gosinu hafi askan ekki hindrað flug lengra en í um 6 til 800 kílómetra frá landi. „Ef það kemur flugbann þá verður það kannski ekki eins strangt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jónas Elíasson

Auðvelt að sjá eftir á að of langt var gengið

Þorgeir Pálsson prófessor emiritus við Háskólann í Reykjavík og fyrrverandi flugmálastjóri tekur í sama streng:  „Það er auðvelt að sjá það eftir á sérstaklega, að þetta hafi verið ónauðsynlegar lokanir eða það er að segja að það hafi verið gengið of langt í að loka og að það verði ekki nauðsynlegt í framtíðinni auðvitað með þeim breytingum og lagfæringum sem gerðar verða á öllum verkferlum.“  Jónas og Þorgeir fluttu erindi 10. mars á málstofu í Háskóla Íslands um eldfjallaösku og flug, mælingar og viðbrögð.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þorgeir Pálsson

Spálíkönum verður ekki treyst eins og áður 

Jónas segir að gögn vanti inn í alþjóðleg gagnasöfn sem notuð eru við gerð veðurspárlíkana en öskuspárlíkön byggja á þeim. Gögnin sem vanti sé afar erfitt að útvega og taka inn í þau : „Ég held að menn muni ekki fara aftur til baka í það að treysta þessum líkönum eins mikið og var gert þarna akkúrat eftir Eyjafjallajökulsgosið.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Flugmenn og flugfélög ákveða sjálf

Mikið hefur verið unnið á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar eftir Eyjafjallajökulsgosið, reglum hefur verið breytt talsvert mikið, sér í lagi um það hver ákveður flug.  „Að það væru flugmenn eða flugfélögin sem tækju sjálf ákvarðanir um hvenær þeir flygju og hvenær ekki.“ Nú er beðið lokaniðurstaðna úr prófunum NASA í fyrrasumar á öskuþoli þotuhreyfla. „Það kom þeim á óvart þeim sem gerðu tilraunina hvað þessir mótorar þoldu mikla ösku,“ segir Þorgeir Pálsson. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV