Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Miklir eldar í Viktoríufylki

30.12.2019 - 08:56
epa08094624 A Skycrane drops water on a bushfire in Melbourne, Australia, 30 December 2019. According to local media reports, thousands of residents and tourists were forced to evacuate in the state of Victoria as soaring temperatures and winds fanned several bushfires around the state.  EPA-EFE/ELLEN SMITH AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Þyrlur eru notaðar við slökkvistörf í Bundoora, úthverfi Melbourne. Mynd: EPA-EFE - AAP
Þúsundir hafa forðað sér frá hættusvæðum í Viktoríu-fylki í Ástralíu þar sem víða loga gróðureldar. Yfirvöld í Melbourne í Ástralíu hafa hvatt íbúa fimm úthverfa borgarinnar að forða sér þaðan eða um 100.000 manns.

Miklir eldar geisa þar nærri, en tekist hefur að halda þeim í skefjum. Yfirvöld segja að ekki hafi þó tekist að ná fullum tökum á þeim.

Andrew Crisp, fulltrúi almannavarna í Viktoríu, sagði ástandið sjaldan hafa verið jafn alvarlegt og í dag. Það væri bæði heitt og hvasst. Hann hvatti fólk til að forða sér af hættusvæðum, ef ekki yrði það að fylgjast með upplýsingum um þróun mála.

Í Nýja Suður-Wales loga eldar á um eitt hundrað stöðum. Slökkviliðsmaður fórst þar við slökkvistörf í morgun og tveir brenndust.  Í borginni Sydney hafa um 270.000 undirritað bænaskjal um að hætt verði við árlega flugeldasýningum um áramótin. Það er þó ekki á döfinni, en hætt hefur verið við  flugeldasýningu í Canberra, höfuðborg Ástralíu.

Einnig loga eldar í Suður- og Vestur-Ástralíu og á eynni Tasmaníu. Ástandið er víða mjög slæmt, heitt og hvasst. Það versnaði til muna fyrir helgi, en á föstudag fór hiti yfir 40 stig í öllum fylkjum Ástralíu og upp í 47 stig í vestur-Ástralíu.

Tíu hafa farist í eldum í Ástralíu síðan í september og meira en eitt þúsund hús hafa eyðilagst. Um fjórar milljónir hektara lands hafa brunnið.

Fréttin hefur verið uppfærð.