Miklar skemmdir á trjágróðri í Kjarnaskógi

27.01.2020 - 20:15
Mynd: RÚV / Björvin Kolbeinsson
Miklar skemmdir hafa komið í ljós á trjágróðri á Norðurlandi eftir óveðrið í desember. Skógarvörðurinn í Kjarnaskógi segir gríðarmikið tjón í skóginum og mikil vinna sé framundan við lagfæringar.

Þegar farið er um Kjarnaskóg, blasa við brotin og bogin tré hvert sem litið er. Miklar skemmdir eru í skóglendi um allt Norðurland, en mestar samt þar sem þungur og blautur snjór safnaðist á trén.

Skemmdirnar og fjárhagstjónið gríðarlegt

„Já ég held að það sé óhætt að segja að skemmdirnar hér og bara fjárhagstjónið er gríðarlegt,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Bogin tré geta rétt sig við aftur

Mestar skemmdir eru á furu, greni og birki. Algengt er að toppar á stórum grenitrjám hafi brotnað af og trén því hálf sköllótt. Þá hafa áratugagamlir og gildir trjástofnar kubbast í sundur eins og eldspýtur. Sum tré bogna niður í jörð þar sem toppurinn frýs fastur. „Einhver eiga eftir að rétta sig alveg við. En önnur vaxa skökk og bogin áfram,“ segir Ingólfur. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Áratugagamlir og gildir trjástofnar hafa kubbast í sundur

Útivistaskógur og tjónið enn meira þess vegna

Og af því að Kjarnaskógur er útivistarskógur segir Ingólfur tjónið enn meira. Í hreinræktuðum nytjaskógi væri hægt að nýta brotin tré í timbur og eldivið. „Fólkið okkar svo sem vill hafa snyrtilegt hjá sér og allt svoleiðis. Og svo getur verið hættulegt að hafa tré sem slúta inn í brautir þar sem kemur skíðafólk á mikilli ferð eða eitthvað svoleiðis. En þetta er bara mikil hirðingarvinna fyrst og fremst.“

Vinnuflokkur við lagfæringar í allt sumar

Og hann segir ómögulegt að áætla tíma eða kostnað við alla þá vinnu, en það þurfi vinnuflokk í allt sumar við lagfæringar. „Stígakerfi okkar er til dæmis sjálfsagt um 30 kílómetra langt og eiginlega meðfram því öllu þarf að vinna mjög mikla vinnu. Við erum með opin svæði og leiksvæði og þetta er bara mikil vinna og dýr.“