Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Miklar efasemdir um staðgöngumæðrun

22.11.2015 - 15:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frumvarp um staðgöngumæðrun er ekki til bóta fyrir samfélagið heldur þvert á móti, segir Kvenréttindafélag Íslands í umsögn sinni. Mikillar andstöðu við frumvarpið og efasemda það verður vart í athugasemdum sem borist hafa Alþingi vegna málsins. Tilvera - samtök um ófrjósemi og Staðganga - stuðningsfélag staðgöngumæðrunar fagna frumvarpinu.

Frumvarp heilbrigðisráðherra um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni fór til velferðarnefndar eftir að fyrstu umræðu um það lauk á Alþingi í haust. Nefndin sendi út 114 umsagnabeiðnir og hafa átján umsagnir borist. Frestur til að skila inn athugasemdum rann út 13. nóvember en nokkrar bárust síðustu daga. Í meirihluta umsagnanna er ýmist lýst andstöðu við að frumvarpið verði að lögum eða efasemdum um það.

Samfélagslega sátt skorti

Jafnréttisstofa segist í umsögn sinni ekki vera viss um að það sé almenn sátt um að lögfesta staðgöngumæðrun, ýmsum spurningum sé enn ósvarað og nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar. Jafnréttisstofa hefur áður goldið varhug við samþykkt laga um staðgöngumæðrum og ítrekar fyrri umsagnir. Að auki eru gerðar athugasemdir við ýmsar greinar frumvarpsins, meðal annars um hvort mögulegt verði fyrir fólk að nýta sér bága stöðu erlendra kvenna til að eignast börn.

Mannréttindastofa segir frumvarpið vel unnið og taka á helstu álitaefnum. Hún telur þó of mikla samfélagslega ósátt um málið, og ágreining um siðfræðileg, lagaleg og samfélagsleg gildi til að réttlæta að frumvarpið verði að lögum. Í umsögninni eru þó gerðar athugasemdir við einstakar greinar svo sem um sérfræðiráðgjöf og staðgöngumæðrun yfir landamæri.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga segir innleiðingu á staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni ekki tímabæra og vísar til starfs siðaráðs félagsins sem kvaðst ekki geta mælt með samþykkt laganna. Félagið bendir á að mörg lögfræðileg, siðfræðileg og læknisfræðileg álitamál séu margþætt og erfið úrlausnar. „Engin trúverðug rök hafa komið fram sem styðja það að Íslendingar eigi að vera brautryðjendur meðal Norðurlandaþjóða á þessu sviði."

Andvíg lagasetningunni

Stjórn Kvenréttindafélags Íslands segist í umsögn sinni telja að ekki eigi að lögfesta staðgöngumæðrun hérlendis. Það séu forréttindi en ekki mannréttindi að eignast börn. Því hvetur Kvenréttindafélagið stjórnsýsluna til að beita sér fyrir því að ættleiðingarferlið verði gert skilvirkara, gagnsærra og einfaldara en nú er. Að auki gerir Kvenréttindafélagið athugasemdir við einstakar greinar. Þar er meðal annars rætt um refsingar og hvort telja ætti refsivert að verðandi foreldrar þvingi aðra til að ganga með börn fyrir sig eða neiti að taka við barninu þegar það er fætt. Stjórn Kvenréttindafélagsins segir að frumvarpið sé ekki til bóta fyrir samfélagið, nema síður sé. Þá séu réttindi barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra ekki tryggð og geti aldrei verið tryggð.

Rannsóknarstofa í jafnréttisfræðum, RIKK, leggst eindregið gegn því að frumvarpið verði að lögum. Í umsögn stofunnar segir að þó margvísleg ákvæði í frumvarpinu eigi að tryggja rétt staðgöngumóður myndi lagasetning sem þessi auka félagslegan þrýsting á fórnfúsar og góðhjartaðar konur að gerast staðgöngumæður til að auka hamingju annarra. RIKK telur óvissuþætti og álitamál svo marga að ekki sé forsvaranlegt að lögleiða frumvarpið.

Fagna frumvarpinu

Í umsögn stjórnar Tilveru, samtaka um ófrjósemi, segir að frumvarpið sé vel unnið og tekið hafi verið tillit til margra athugasemda og umsagna. Samtökin vonast til að frumvarpið verði að lögum sem fyrst á næsta ári „því það er raunveruleg þörf á þessu úrræði fyrir ákveðinn hóp þeirra sem ekki geta eignast börn og eru sumir hverjir að renna út á tíma...". Þá leiði frumvarpið til þess að markmið þess um að tryggja hag allra sem í hlut eiga náist.

Staðganga, stuðningsfélag staðgöngumæðrunar á Íslandi, lýsir sig í megindráttum sammála frumvarpinu og fagnar því að það sé komið fram. Í umsögn félagsins segir að þetta snúist ekki um að það séu mannréttindi að eignast barn eins og umræðan hafi gjarnan og ranglega snúist um. Þar segir að þetta snúist alfarið og eingöngu um rétt kvenna til að vera staðgöngumæður af fúsum og frjálsum vilja og rétt verðandi foreldra til að þiggja slíka aðstoð ef hún býðst.

Ekki rétta forgangsröðunin

Landlæknir tekur ekki afstöðu til einstakra greina frumvarpsins en telur að staðgöngumæðrun myndi auka kostnað og flækjustig heilbrigðisþjónustunnar sem eigi þegar við margvíslegar áskoranir að etja. Landlæknir segir það ekki rétta forgangsröðun í dag að afgreiða frumvarpið. Slíkt væri ekki tímabært. Að auki bendir hann á það, til marks um flókin læknisfræðileg, siðfræðileg og samfélagsleg álitaefni, að ekkert annað ríki á Norðurlöndum hafi leyft staðgöngumæðrun.

Barnaverndarstofa hefur umsögn sína á að benda á að hvorki innlendar né erlendar skuldbindingar krefjist þess að lög um staðgöngumæðrun verði sett. Barnaverndarstofa leggur áherslu á að staða og aðbúnaður barna sem koma í heiminn með þessum hætti verði viðunandi og réttinda þeirra gætt. Í lok umsagnarinnar segir að Alþingi verði að velta því fyrir sér, hvort málaflokkurinn sé ekki slíkur að þau álitaefni sem koma upp séu í verulegum mæli utan þess sem hægt sé að kveða á um í lögum. Velta þurfi því upp hvort það geri ef til vill að verkum að ekki sé hægt að setja skynsamlega löggjöf um staðgöngumæðrun.

Tryggi aðkomu sérfræðinga

Félagsráðgjafafélag Íslands tekur ekki afstöðu til frumvarpsins en hvetur Alþingi til að velta fyrir sér hvort lagasetningin skapi meiri vanda en það leysir. Félagið segir frumvarpið taka á flóknum álitamálum og bendir á að hvorki innlendar né alþjóðlegar skuldbindingar geri kröfu um að sett verði lög sem heimili staðgöngumæðrun. Félagið hvetur þó til þess hvort tveggja félagsfræðingur og sálfræðingur eigi sæti í sérfræðinganefnd sem veiti leyfi til staðgöngumæðrunar – ef það er vilji stjórnvalda að setja slík lög. Þar með vísar Félagsráðgjafafélagið til umsagnar Sálfræðingafélags Íslands.

Sálfræðingafélag Íslands gerir athugasemd við tvær greinar frumvarpsins, þar á meðal aðra sem gerir ráð fyrir félagsfræðingi eða sálfræðingi í sérfræðinganefnd. Stjórn Sálfræðingafélagsins segir að sálfræðingar hafi bestan faglegan grunn fagstétta til að meta þá þætti sem þörf sé á, því sé best að sálfræðingur sitji ávallt í nefndinni og að hvort tveggja félagsfræðingar og sálfræðingar verði til staðar í ferlinu.

Taka ekki afstöðu

Samtökin '78 taka ekki afstöðu til staðgöngumæðrunar þar sem málið er umdeilt og margar skoðanir meðal félagsmanna. Samtökin gera þó athugasemd við það að annað væntanlegra foreldra þurfi að leggja til kynfrumur og að einhleypur einstaklingur þurfi að gera það sama. Þau benda á að hinsegin einstaklingar séu líklegri en aðrir hópar til að geta ekki lagt fram kynfrumur.

Þjóðskrá Íslands tekur ekki afstöðu til frumvarpins en gerir athugasemdir við einstakar greinar þess, svo sem um yfirfærslu á foreldrastöðu og banni við auglýsingum vegna staðgöngumæðrunar.

Trúfélög efins

Þrjú trúfélög hafa skilað inn umsögn um frumvarpið. Tvö lýsa andstöðu við frumvarpið og það þriðja við heitið staðgöngumæðrun.

Hvítasunnukirkjan Fíladelfía telur frumvarpið ýmsum vanköntum háð og varla nothæft. Þar er vísað til flókinna siðfræðilega, læknisfræðilegra og félagslegra efna. Einnig er bent á að of mörg börn í heiminum séu án foreldra og nærtækara að mæta þörfum þeirra barna, að auki tryggi frumvarpið ekki réttindi þeirra barna sem staðgöngumóðirin eigi fyrir. Þá segir í umsögn Fíladelfíu að það séu forréttindi að eignast barn en ekki mannréttindi. „Undirliggjandi lögleiðingu staðgöngumæðrunar í velgjörðarskyni virðist vera einhvers konar mannréttindahugsjón fyrir þá sem geta ekki sjálfir eignast barn, en án virðingar við líkama kvenna sem hér væru í raun notaðir löglega til undaneldis." Þá hvetur Fíladelfía stjórnvöld til að skapa úrræði fyrir þær konur sem ekki vilja fara í fóstureyðingu en sjái sér ekki fært að ala upp barn.

Andlegt þjóðarráð Bahá'ía á Íslandi segist með engu móti geta mælt með staðgöngumæðrun af neinu tagi, þó það hafi ævinlega forðast að þröngva siðgildum trúar sinnar upp á aðra. Í umsögn ráðsins segir að það sé varhugavert að aðskilja blóðtengsl og fjölskyldutengsl líkt og gerist þegar egg eða sæði sé gefið. Í þessum efnum sé staðgöngumæðrun jafnvel enn stærra skref í þessum aðskilnaði en hingað til hafi verið stigin.

Ein umsögn sker sig úr. Það er umsögn Óháða söfnuðarins þar sem aðeins er gerð ein athugasemd við frumvarpið. Hún snýr að heitinu. „Staðgöngumóðir stendur fyrir mömmu, sem gekk einhverjum í móðurstað, fóstra eða stjúpmóðir. „Meðgöngumóðir" og „meðgöngumæðrun" lýsir því gersamlega, sem við á að éta í þessum efnum. Mamman gengur með bumbubúann meðan meðgangan á sér stað í þessa 9 mánuði og svo vart söguna meir. Þess vegna lýsir hitt orðalagið ekki neinu réttu, heldur röngu í huga alþýðu manna..." segir í umsögn Óháða söfnuðarins.

Tveir einstaklingar hafa skilað inn umsögnum um frumvarpið. Jónína Einarsdóttir, prófessor í mannfræði, segir lagasetningu um staðgöngumæðrun ekki tímabæra. Hún bendir á að mikið skorti upp á rannsóknir á flestu því sem viðkomi staðgöngumæðrun. Guðmundur Pálsson læknir kveðst andvígur staðgöngumæðrun í grundvallaratriðum en gerir einnig athugasemdir við fjölda greina.