Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikilvægt að sporna við offitu barna

04.02.2020 - 14:00
Mynd: GAG / GAG
Hægt er að afstýra því að börnin okkar þyngist og þyngist, segir barnalæknirinn Tryggvi Helgason sem um helgina hélt erindið: Hversu þung verða börn framtíðarinnar? á málþingi Íslenskrar erfðagreiningar um offitu.

Tryggvi segir að íslensk börn hafi verið að þyngjast undanfarin 40 ár, „en á síðustu 20 árum hefur hægst á þeirri aukningu, sérstaklega í höfuðborginni, hefur aðeins haldið áfram á landsbyggðinni. Við erum orðin þyngri en hinar Norðurlandaþjóðirnar, við fylgjum Ameríku og Bretlandi í þessum efnum,“ sagði Tryggvi í Morgunútvarpinu. „Við getum haft heilmikil áhrif á það hvaða vöxtur verður á börnunum okkar í framtíðinni. Það er það sem mér finnst mest spennandi að horfa á.“ Að sögn Tryggva eru tvær borgir sem hafa lagst í markvisst átak til að draga úr þyngd barna, London og Amsterdam. „Í Amsterdam settu þeir markmið fyrir 8 árum, að árið 2033 verði öll börn í borginni í heilbrigðri þyngd. Þeir hafa birt tölur um árangur, skemmtilega framsett, og lagt í þetta metnað.“

Að sögn Tryggva er það blanda af mataræði og breyttum lífsvenjum sem orsakar það að þjóðin sé að þyngjast, og flókið að útskýra í einföldu máli. „Svefn hefur áhrif á það, það eru fullt af hormónum sem stýra svengd og seddu. Þú ert svangur ef þú ert illa sofinn. Ef maður er stöðugt svangur og það er framboð af öðru en grænmeti og ávöxtum borðar maður líklega allt of mikla orku. Svo er líka vaxandi framboð á afþreyingu sem veldur því að maður situr kjurr.“ Tryggvi segir ekki fjallað nógu mikið um ofþyngd barna. „Mér finnst það ætti að vera meira um opinberar tölur. Heilsugæslan er með þetta á tölvutæku formi þar sem börnin eru vigtuð í skólum, en landlæknir hefur ekki birt nýlegar tölur opinberlega. Mér finnst þetta ætti að vera eitthvað sem sveitarstjórnarfólk og fleiri fái til sín eins og aðra lýðheilsuvísa.“

Þá finnst Tryggva einboðið að vigta börn í skólum á hverju ári en ekki þriggja ára fresti en eins og nú er gert, en það þurfi líka að líta til fleiri þátta en bara kílóatölu hvers barns í tómarúmi. „Maður þarf að horfa á hvort barnið hafi alltaf verið stórt og þungt og sé bara að vaxa eftir sinni línu. Þá er það yfirleitt bara allt í lagi. En ef barnið er að þyngjast hraðar en hinir krakkarnir það er það sem þarf að koma auga á.“ Þá sé ýmiss konar þjónusta í boði fyrir börn sem eru of þung, bæði innan skólanna og heilsugæslunnar. „Þegar ég ræði við foreldra um að barnið þeirra sé að þyngjast hraðar en hollt sé er fólk almennt opið fyrir því að reyna að laga það.“

Tryggvi er mjög skýr með það að ekki sé hægt að nefna eina ástæðu fyrir því að börn þyngist meira en heilbrigt er. „Það sem er svo skemmtilegt við offituna er hvað hún er flókin.“ En er ekki hægt að vera þéttur og stór en samt hraustur? „Jú. En sérstaklega með fullorðna, ef þeir eru þéttir og stórir fyrir ofan ákveðna línu í þyngd, þá er oftast þannig að orku/fitubyrgðirnar eru of miklar og leggja ákveðið álag á kerfið. Ef þú ert komin fyrir ofan þetta viðmið, 30-35 ca. í líkamsmassastuðul, þá eru töluvert auknar líkur á að þú fáir ýmsa fylgisjúkdóma, veikist fyrr en maðurinn við hliðina á þér.“ Eftir að fólk er orðið fullorðið er samt oft erfitt að breyta þyngdarstöðunni. „Það er bara eitthvað sem líkaminn ver. Við erum alin upp í landslagi sem er oft skortur þegar við horfum 100-200 ár aftur í tímann, en núna skyndilega er ofgnótt af mat. Þá er lífveran maðurinn bara ekki búin að aðlagast nógu hratt til að þola það alveg.“

Gunnhildur Anna Gunnarsdóttir og Hulda Geirsdóttir ræddu við Tryggva Helgason í Morgunútvarpinu á Rás 2.