Áður komið þurrkaskeið
Allt tengist þetta þurrkatíðinni sem hefur verið á Suður og Vesturlandi í mestallt sumar. Spegillinn spurði Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðing, hvort þurrkurinn væri fordæmalaus. „Það verður nú fróðlegt að skoða það, það verður gert í lok sumarsins, en ég held nú ekki. Við munum eftir miklum þurrkum hérna suðvestan- og vestanlands 2010 og 2007 og svo einhvern tímann fyrr. Vissulega er þetta þó heilt yfir, alveg frá því í maí, mikið þurrkatímabil hérna Vestanlands.“
Í fimm vikur frá miðjum maí og næstum út júní kom ekki deigur dropi úr lofti, var það ekki þannig nokkuð víða? „Jú, allavega í Stykkishólmi þar sem hefur verið mælt lengi, það var lengsti samfelldi þurrkur þar í sögu mælinga. Hann er ekki eini mælikvarðinn en hann er samt ákveðin vísbending um þessa þurrka sem hafa verið hérna vestanlands.“