Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mikilvægt að bregðast rétt við hvalreka

08.08.2019 - 13:54
Mynd: Greta Carlson / RUV
Það sem af er sumri hafa tvær grindhvalatorfur strandað við Ísland. Önnur torfan gekk á land á Löngufjörum á Vesturlandi en hin í Garðskagafjöru í Garði. Að sögn sjávarlíffræðings er hvalreki orðinn að árlegum viðburði. Mikilvægt sé að bregðast rétt við þegar komið er að hval í fjöru. Líklega er hann í fæðuleit, að elta makríl sem syndir nálægt landi.

Fimmtíu hvali rak á land á föstudagskvöld í við Útskálakirkju í Garði og það tókst að bjarga 30 dýrum. Edda Elísabet Magnúsdóttir, sjávarlíffræðingur, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að það skipti miklu máli að fara gætilega að dýrunum.

Mikilvægt að bregðast rétt við

Það er mikilvægt að þeir sem koma að hval í fjöru hafi strax samband við lögreglu, segir Edda. Lögreglan sér um að hafa samband við rétt fólk en ef enginn annar er kominn á staðinn er hægt að hjálpa til. „Eitt það mikilvægasta sem hægt er að gera, ef hvalur er lifandi, er að halda honum rökum,“ segir Edda. Hvalir þola illa að þorna og þeir ná ekki að stýra hitastigi líkamans á landi og ofhitna. Þá þarf að skýla þeim fyrir sól því þeir brenna auðveldlega. 

Það er mikilvægt að fara gætilega að dýrunum. Þau séu stressuð og í mikilli angist og vanlíðan. Edda segir að oft séu dýrin sem ganga á land lifandi og þau velja það ekki sjálf að fara í land heldur hefur eitthvað gerst sem gerir það að verkum að svo fer. Dýrin eru viðkvæm fyrir hávaða og fólki og ónærgöngulum aðförum, til dæmis ef fólk skvettir vatni á hvalina án þess að þeir sjái það koma. „Það hefur sýnt sig að ef það er einn hjá hverjum hval að leggja hendurnar á hann og tala blíðlega við hann eða humma eða skapa rólegt umhverfi þá virðast þeir róast,“ segir Edda. 

Dæmi eru um það frá útlöndum að grindhvali og aðrar höfrungategundir reki í land vegna veikinda. Þá eru dýrin með vírus sem fólk getur smitast af. Þess vegna segir Edda að það sé mikilvægt að fara gætilega, vera í hönskum og passa að hvalurinn andi ekki framan í fólk en hún bendir einnig á að viðbragðsaðilar taki ekki áhættu og vilji ekki að almenningur sé of mikið ofan í hvölunum vegna smithættu.

Einbeita sér að kvendýrunum

Eins og er þá er unnið að því að fullgera vinnulag um hvað skuli gera þegar hvalreki verður. Bíða þarf eftir flóði og ýta dýrunum út. Mikilvægt er að það sé gert rétt, það má ekki tosa í hvalina eða binda reipi um sporðinn á þeim og draga þá út í. Lífslíkur hvala sem synda á land eru í mesta lagi sólarhringur en þær fara minnkandi með hverjum klukkutíma sem líður. 

Edda segir að viðbrögð björgunarsveitamanna í Garðskagafjöru hafi verið hárrétt því þeir einbeittu sér að kvendýrunum og settu þau dýr sem voru nálægt hvort öðru saman út í sjó. „Ef ungviði er sett út fyrst þá er líklegt að það fari aftur upp á land því þeir elta ættmóðurina. Það er mikilvægt að setja heilbrigt kvendýr í forgang,“ segir Edda. Hins vegar, ef kvendýr er slasað eða í slæmu ástandi, geti það gert það illt verra að sleppa henni út því hún geti líklega ekki leitt hópinn.  

Telur hvalina vera að eltast við fæðu

Aðspurð að því hvað skýri hvalreka segir Edda að Hafrannsóknastofnun sé að vinna að ítarlegri úttekt en niðurstaða óformlegrar samantektar sé að margt bendi til þess að hvalagengd sé að breytast. Hvalirnir séu í meiri mæli úti fyrir suðvestur- og vesturströnd landsins og líklega sé það fæðutengt eins og oftast þegar útbreiðsla hvala breytist.

„Mjög líklega er fæðan að stýra. Fæðan er næmari fyrir hitastigi sjávar. Í þessu tilfelli erum við líklega að sjá þá vera að elta makrílinn og mögulega elta þeir makrílinn í meiri mæli þegar það er verri tíð í smokkfiskveiðunum hjá þeim,“ segir Edda. „Makríllinn kemur mjög nálægt landi og það getur skýrt af hverju við höfum mikið af þeim úti fyrir suðvestur- og vesturströnd landsins.“

Ýmislegt annað getur leitt til þess að suma þessa hvali rekur á land. „En það er alveg skýrt mál að það eru breytingar, hvort sem þær séu komnar til að vera næstu tíu árin eða svo. En þetta virðast vera nokkuð skýr viðbrögð við breytingu á fæðuaðgengi þessara hvala.“