Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikilvægi Norður-Atlantshafsins

10.03.2020 - 11:13
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson-R / RÚV
Norður-Atlantshaf hefur ætíð haft mikla hernaðarlega þýðingu. Á tímum kalda stríðsins óttuðust þjóðir Atlantshafsbandalagsins mjög að sovéski flotinn réðist á flutningaleiðir frá Bandaríkjunum til Evrópu. Nú hefur ógnin breyst, smærri en tæknilega vel þróaður floti Rússa getur ráðist á flutningaleiðir úr meiri fjarlægð, segir bandaríski her- og flotafræðingurinn Magnus Nordenman.

Norður-Atlantshaf enn mjög mikilvægt

Nordenman sagði í fyrirlestri á vegum Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál, að Norður-Atlantshaf væri enn hernaðarlega mjög mikilvægt. Nordenman er þekktur sérfræðingur á sviði öryggismála, er eftirsóttur fyrirlesari og álitsgjafi margra stórra fjölmiðla.

Nýja orrustan um Atlantshaf

Nordenman sendi í fyrra frá sér bók sem ber heitið The New Battle for the North Atlantic – Emerging Naval Competition with Russia in the Far North, Nýja orrustan um Atlantshaf, vaxandi flotasamkeppni við Rússa á norðurslóðum. Í fyrirlestri sínum sagði Nordenman að í kalda stríðinu hefði verið gert ráð fyrir árásum Rússa á liðsflutninga frá Bandaríkjunum og Kanada á Norður-Atlantshafi, kæmi til átaka.

Ógnin frá háþróuðum kafbátum

„Það sem hefur breyst er að rússneski flotinn er alltof lítill til að ráðast gegn skipum úti á miðju Norður-Atlantshafi. Ef litið er til herafla hans og svo hernaðaráætlana þá er helsta ógnin frá mun smærri flota kafbáta sem er mun háþróaðri og hefur sýnt sig að geta skotið á loft mjög langdrægum stýriflaugum sem geta hæft skotmörk um alla Norður-Evrópu.“

Atlantshafið alltaf hernaðarlega mikilvægt

Nordenman minnti í fyrirlestri sínum á að Norður-Atlantshafið hefði verið hernaðarlega mikilvægt öldum saman. Bretar hefðu tapað frelsisstríðinu í Bandaríkjunum af því að þeir gátu ekki hindrað franska flotann í að flytja herlið vestur um haf. Þúsundir franskra hermanna skiptu sköpum í orrustunni við Yorktown í október 1781 sem endaði með uppgjöf breska hersins. Í Napóleonstyrjöldunum í lok átjándu og byrjun nítjándu aldar náðu Bretar hins vegar yfirráðum á hafinu. Eftir að Nelson lávarður sigraði fransk-spænska flotann við Trafalgar-höfða undan Spánarströndum í október 1805, réðu Bretar lögum og lofum á Norður-Atlantshafi næstu öldina. Yfirburðir flotans voru forsenda þess að Bretar gátu lagt undir sig stóran hluta heimsins og búið til heimsveldi sitt.

Tvísýnt í tveimur heimsstyrjöldum

Á tuttugustu öldinni munaði í tvígang mjóu að Þjóðverjum tækist að stöðva flutninga til Bretlands. Bæði í fyrri og síðari heimsstyrjöldinni lá við að þýskir kafbátar ynnu sigur á hafinu. Orrustan um Atlantshafið var orrusta styrjaldarinnar, hún stóð frá fyrsta degi til hins síðasta í styrjöldinni og kostaði miklar mannfórnir, þar á meðal fórst fjöldi Íslendinga.

Stríð geta tapast á Atlantshafi

Nordenman vitnaði í fyrirlestri sínum í orð Winstons Churchill, forsætisráðherra Breta í síðari heimsstyrjöld:

Styrjöld verður ekki unnin á Atlantshafi en það er auðvelt að tapa henni þar.

-Winston Churchill

Kalda stríðið

Í kalda stríðinu voru ríki Atlantshafsbandalagsins, NATO, með mikinn viðbúnað til að mæta árásum Rússa á Norður-Atlantshafi, sem allir bjuggust við, kæmi til styrjaldar. Fjöldi herskipa í flotum NATO-ríkjanna var hannaður til að berjast gegn kafbátum, ekki síst tundurspillar og freigátur í bandarísku og bresku flotunum. Hlustunarkaplar voru lagðir þvers og kruss á botni Atlantshafsins og í lofti fylgdust eftirlitsflugvélar með. Keflavíkurstöðin gegndi mikilvægu hlutverki í eftirlitinu með siglingum sovéskra kafbáta. Annar floti Bandaríkjanna hafði það hlutverk að annast öryggi og varnir við austurströnd Bandaríkjanna og á Norður-Atlantshafi.

Ógnin minnkar

Að kalda stríðinu loknu töldu NATO-ríkin rússneska flotann ekki lengur ógn á Atlantshafinu, minni áhersla var lögð á herskip sem höfðu það hlutverk að berjast við kafbáta þegar flotar ríkjanna voru endurnýjaðir og annar floti Bandaríkjanna var lagður niður.

Allt breyttist með innlimun Krímskaga

Þetta breyttist allt 2014 með innlimun Rússa á Krímskaga. Allt viðhorf til öryggismála var endurskoðað, þar á meðal ógnin við flutningaleiðir yfir Norður-Atlantshaf. Annar floti Bandaríkjanna var virkjaður á ný, en hvernig hefur NATO brugðist við nýrri ógn á Atlantshafi?

„NATO-ríkin eru að bregðast við núna og margt lofar góðu, nýjar aðalstöðvar hafa verið settar á fót, fjármunum er varið í nýjar eftirlitsflugvélar og freigátur og svo framvegis en ég held að meira þurfi að gera.“

Segir Magnus Nordenman.

Fjárveitingar sýna hver stefnan er

Athygli Bandaríkjanna beindist frá Evrópu og Atlantshafinu eftir kalda stríðið og margir í Evrópu hafa dregið í efa vilja núverandi stjórnvalda í Washington til að verja álfuna. Nordenman segir að líta verði á aðgerðir og viðbúnað Bandaríkjamanna:

„Haft er að orðtaki í Ameríku að stefnan sé það sem njóti fjárstuðnings. Ef það er haft í huga að evrópska fælingarfrumkvæðið kostar fimm milljarða dala árlega og það greiðir fyrir veru Bandaríkjamanna í Evrópu og svo viðhald á grunnstoðum í Evrópu, það hefur vaxið úr fimm hundruð milljónum í upphafi í fimm milljarða nú. Ef stefna er það sem fær fjármögnun þá er þetta sannarlega stefnan.“

 

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV