Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Mikilvægara að vera barn aðeins lengur"

04.11.2019 - 16:54
Mynd: RUV / RUV
Aðstoðarskólastjóri segir að það væri skerðing á lífsgæðum ef grunnskólinn yrði styttur um eitt ár. Börn verði ári skemur börn ef þau fari fyrr á vinnumarkaðinn. Formaður Félags grunnskólakennara segir að tillögur um styttingu grunnskólans séu í andstöðu við þá bylgju í samfélaginu að minnka álag.

Við sögðum frá umfangsmiklum tillögum Samtaka atvinnulífsins í menntamálum í Speglinum á föstudag. Þær lúta að ýmsum breytingum á öllum skólastigum sem miða að því að efla nám og námsárangur. Til dæmis er lagt til að leikskóli verði tryggður öllum börnum eftir fæðingarorlof foreldra. 

Vilja stytta grunnskólann

Í hnotskurn er í tillögum samtakanna verið að tala um að skólaárum verði fækkað í níu með lengingu skólaársins. Það mun bæta námsárangur, minnka svokallað umönnunarbil, draga úr kennaraskorti, hækka ævitekjur, vega á móti neikvæðum afleiðingum öldrunar þjóðarinnar, auka hagvöxt og stuðla að betri nýtingu fjár í kerfinu, segir orðrétt í skýrslunni.

Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins kom að gerð skýrslunnar. Hann benti í Speglinum á að bæta þyrfti úr slökum árangri í PISA-könnunum og slakri færni unglinga í lestri.

„Erlendar rannsóknir sýna að löng sumarfrí eins og hér á Íslandi hafa mjög slæm áhrif á námsárangur barna. Þetta á sérstaklega um börn fátækra og börn innflytjenda. Í dag eru 10 prósent grunnskólanemenda með erlent móðurmál. Við þurfum að huga sérstaklega að þessum hópi. Þannig að stytting námstíma til grunnskólaprófs er mjög líkleg til að bæta námsárangur. Það er útgangspunkturinn hjá okkur," segir Davíð.

Ekki ráðlegt núna

Tillögurnar voru formlega kynntar í dag. Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla, sem var um tíma aðstoðarmaður menntamálaráðherra, efast um að stytting grunnskólans bæti námsárangur.

„Ég sé ekki alveg að ef þú styttir eitthvað að þá getir þú bætt það um leið. Ég hef alveg mínar skoðanir á því hvernig hægt er að bæta grunnskólann. Við þurfum að dýpka lesskilning og auka náttúrufræðilæsi og stærðfræðilæsi. En að fara í 9 ár með grunnskólann tel ég ekki eins og ég hugsa það núna ekki ráðlegt," segir Jón Pétur.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Jón Pétur Zimsen

Jón Pétur bendir á að í samfélagi þar sem allt sé á fullu sé skyldunámið 10 ár. Í núverandi kerfi geta duglegir nemendur flýtt sér og farið í framhaldsskóla eftir 9 ár.

„Ég held að það sé bara gott fyrir okkur að hafa það 10 ár og halda þannig í krakkana okkar í 10 ára skyldunámi."

Í andstöðu við að minnka álag

Stytting grunnskólans um eitt ár hefði áhrif á starf kennara. Færri kennara þyrfti, sem vægi upp á móti núverandi kennaraskorti. Þeir myndu vinna fleiri skóladaga. Verið er að tala um að lengja skólastarfið um 17 daga og stytta sumarfrí skólabarna úr 10 vikum í 7. Þorgerði Laufeyju Diðriksdóttur, formanni Félags grunnskólakennara, hugnast ekki stytting grunnskólans.

„Ég lít bara svo á að þetta sé í algjörri andstöðu við þá bylgju sem er í samfélaginu einmitt um það að minnka álag, minnka vinnuálag almennt á allan almenning. Með því að vera að koma með tillögur um að þrýsta 10 ára námi niður í 9 ár og auka þannig vinnuálag á nemendur finnst mér vera í andstöðu við það sem fólkið er að kalla eftir," segir Þorgerður.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Þorgerður Laufey Didriksdóttir

Þorgerður segist skilja hugsunina á bak við tillögurnar og fagnar því að allir séu að ræða um menntamál. Hún vill frekar að skyldunám sé lengt, það er að segja niður í leikskólann.

„Raunverulega erum við að horfa til þess að nemendur og þá sérstaklega þeir nemendur sem hér er verið að tala um, sem standa höllum fæti, myndu standa enn verr ef við myndum stytta grunnskólann um eitt ár. "

Jón Pétur talar um að auka þurfi dýptina í náminu til að bæta námsárangurinn. Margir geti flýtt náminu en til að flytja alla eftir 9 ár í framhaldsskóla þarfnist rannsókna.

Nú er brottfallið mikið, mun það ekki bara aukast? „Ef einhverjar ákvarðanir verða teknar um að stytta grunnskólann þá þurfa að liggja fyrir mjög góðar og ígrundaðar rannsóknir þar að baki," segir Jón Pétur.

Skerðing á lífsgæðum

Hann segir að með styttingu skólans væri verið að stytta barnæskuna.

„Já, ég tel það vera skerðingu á lífsgæðum. Að börn t.d. úti á landi þurfi að fara ári fyrr frá foreldrum sínum. Börn verða bara ári styttra börn ef að þau fara ári fyrr út á vinnumarkaðinn. Auðvitað er hægt að reikna svona til þjóðartekna og alls konar þannig hluta en ég tel bara að það sé mikilvægara að vera barn aðeins lengur," segir Jón Pétur.

Rætt er við Jón Pétur og Þorgerði Laufeyju í Speglinum.

 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV