Við sögðum frá umfangsmiklum tillögum Samtaka atvinnulífsins í menntamálum í Speglinum á föstudag. Þær lúta að ýmsum breytingum á öllum skólastigum sem miða að því að efla nám og námsárangur. Til dæmis er lagt til að leikskóli verði tryggður öllum börnum eftir fæðingarorlof foreldra.
Vilja stytta grunnskólann
Í hnotskurn er í tillögum samtakanna verið að tala um að skólaárum verði fækkað í níu með lengingu skólaársins. Það mun bæta námsárangur, minnka svokallað umönnunarbil, draga úr kennaraskorti, hækka ævitekjur, vega á móti neikvæðum afleiðingum öldrunar þjóðarinnar, auka hagvöxt og stuðla að betri nýtingu fjár í kerfinu, segir orðrétt í skýrslunni.
Davíð Þorláksson frá Samtökum atvinnulífsins kom að gerð skýrslunnar. Hann benti í Speglinum á að bæta þyrfti úr slökum árangri í PISA-könnunum og slakri færni unglinga í lestri.
„Erlendar rannsóknir sýna að löng sumarfrí eins og hér á Íslandi hafa mjög slæm áhrif á námsárangur barna. Þetta á sérstaklega um börn fátækra og börn innflytjenda. Í dag eru 10 prósent grunnskólanemenda með erlent móðurmál. Við þurfum að huga sérstaklega að þessum hópi. Þannig að stytting námstíma til grunnskólaprófs er mjög líkleg til að bæta námsárangur. Það er útgangspunkturinn hjá okkur," segir Davíð.
Ekki ráðlegt núna
Tillögurnar voru formlega kynntar í dag. Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri í Réttarholtsskóla, sem var um tíma aðstoðarmaður menntamálaráðherra, efast um að stytting grunnskólans bæti námsárangur.
„Ég sé ekki alveg að ef þú styttir eitthvað að þá getir þú bætt það um leið. Ég hef alveg mínar skoðanir á því hvernig hægt er að bæta grunnskólann. Við þurfum að dýpka lesskilning og auka náttúrufræðilæsi og stærðfræðilæsi. En að fara í 9 ár með grunnskólann tel ég ekki eins og ég hugsa það núna ekki ráðlegt," segir Jón Pétur.