Mikill geðheilsuvandi meðal hinsegin ungmenna

Mynd: Guðrún Häsler / Guðrún Häsler

Mikill geðheilsuvandi meðal hinsegin ungmenna

13.08.2019 - 14:23
Fræðsla um geðheilsu hinsegin ungmenna fer fram í Þjóðminjasafninu fimmtudaginn 15. ágúst. Guðrún Häsler sálfræðingur er ein af þeim sem halda erindi og ræða stöðuna hér á landi út frá rannsóknum sínum og reynslu.

Erlendar rannsóknir sýna að geðheilsuvandi er mikill meðal hinsegin ungmenna en rannsóknir hérlendis eru af skornum skammti. Rannveig Sigurvinsdóttir lektor við HR, Berglind Gísladóttir lektor við HÍ og Guðrún Häsler sálfræðingur halda erindi og ræða stöðuna.

Guðrún segir að rannsóknir sýni að munur sé á geðheilsu hinsegin ungmenna og geðheilsu gagnkynheigðra ungmenna. Á fræðslukvöldinu tekur Guðrún fyrir geðheilsu trans ungmenna ásamt strák sem heitir Hrafn og er hinsegin. Einnig ætlar hún að ræða hvað foreldrar geta gert til að styðja betur börnin sín og hvernig fagfólk og aðrir geta hjálpað. 

„Erlendar rannsóknir hafa verið að sýna að það er mjög mikið um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir, í rauninni allt upp í áttfalt miðað við þá sem eru ekki hinsegin.“

Guðrún starfar meðal annars sem ráðgjafi hjá Samtökunum '78. Til að fá ráðgjöf er hægt að skrá sig á netinu eða senda samtökunum tölvupóst og biðja um ráðgjöf. Á heimasíðunni samtokin78.is er umsóknareyðublað sem fyllt er út og sent inn og þá er haft samband. Ráðgjöfin er bæði fyrir hinsegin fólk og líka aðstandendur. Guðrún hvetur fólk til að nýta sér þessa ráðgjöf. 
 

Hlustaðu á viðtalið í heild sinni við Guðrúnu Häsler hér fyrir ofan.