Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mikill áfangi í stjórnarskrármálinu

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Forsætisráðherra segist vera bjartsýn á að breytingar á stjórnarskrá fari fyrir Alþingi á þessu kjörtímabili. Hún átti fund með formönnum flokka á Alþingi í dag. „Formenn flokkanna lögðust ekki gegn því að þessi ákvæði færu í samráðsgáttina á þessu stigi. Þau eru ekki auðvitað ekki endanleg. Við eigum eftir að fá viðbrögð við þeim,“ segir Katrín. „En það leggst enginn gegn því að þessi ákvæði fari núna í opið samráð og það er auðvitað mikill áfangi“.

Tæp níu ár eru síðan boðað var til þjóðfundar um stjórnarskrá þar sem rætt var um innihald hennar. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gaf í fyrra út áætlun þar sem gert er ráð fyrir að stjórnarskráin verði endurskoðuð í heild á þessu og næsta kjörtímabili.

„Það sem við sendum frá okkur í dag eru í raun og veru tillögur annars vegar að nýju umhverfisákvæði í stjórnarskrána og hins vegar nýju auðlindákvæði í stjórnarskrá. Þetta eru ákvæði sem hafa lengi verið til umræðu í samfélaginu og þess vegna forgangsröðuðum við þeim í okkar vinnu,“ segir Katrín.

Tillögurnar hafa verið birtar í samráðsgátt stjórnvalda og geta allir sem vilja skilað inn umsögn út júní. Lagt er til að ný grein bætist við stjórnarskrána sem hljóðar svona:

Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun. Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar. Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.

Þá er einnig lagt til að sett verði inn í stjórnarskrá ákvæði um umhverfið, að allir landsmenn beri sameiginlega ábyrgð á því að vernda náttúru og umhverfi og að verndin eigi að grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum. 

Forsætisráðherra átti fund með formönnum flokka á Alþingi í dag.

„Formenn flokkanna lögðust ekki gegn því að þessi ákvæði færu í samráðsgáttina á þessu stigi. Þau eru ekki auðvitað ekki endanleg. Við eigum að sjálfsögðu eftir að fá viðbrögð við þessum tillögum sem eru birtar sem frumvörp og greinargerðir með þeim. Þannig að við munum sjá hvað kemur út úr því. En það leggst enginn gegn því að þessi ákvæði fari núna í opið samráð og það er auðvitað mikill áfangi. Ég vil nú nota tækifærið og segja að þessi vinna hefur gengið mjög vel og það hefur verið mjög gott samtal milli formanna flokkanna og fulltrúa þeirra á þessum vettvangi,“ segir Katrín.

Forsætisráðherra segir að vinnan sé á áætlun.

„Þannig að ég er enn bjartsýn á að við munum sjá breytingar á stjórnarskrá fyrir Alþingi á þessu kjörtímabili,“ segir Katrín.

Áttu von á því að í næstu Alþingiskosningum verði kosið um stjórnarskrá?

„Ég vonast til þess að það þing sem nú situr verði þá búið að afgreiða tilteknar breytingar og þær verði unnt að staðfesta að loknum næstu þingkosningum og að við getum haldið áfram þeirri vinnu sem var lagt upp með að ljúka á tveimur kjörtímabilum sem fæli í sér heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar,“ segir Katrín. 

Hún segist vera ánægð með stöðuna á verkefninu.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV