Mikil vonbrigði ef Ísland færi á gráan lista

17.10.2019 - 18:34
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Stjórnvöld telja sig hafa brugðist við öllum athugasemdum alþjóðasamtaka um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hér á landi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það yrðu gríðarleg vonbrigði ef Ísland lendir á gráum lista um ósamvinnuþýð lönd.

FATF, alþjóðlegur starfshópur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka hefur fundað stíft í París síðustu daga. Í skýrslu hópsins frá 2018 var bent á 51 ágalla á umgjörð og framkvæmd í málaflokknum á Íslandi en stjórnvöld hafa brugðist við meirihluta þessara athugasemda. Síðan þá hafa dómsmálaráðuneytið og fjármála- og efnahagsráðuneytið unnið að úrbótum ásamt Fjármálaeftirlitinu, Ríkislögreglustjóra, Ríkisskattstjóra og Tollstjóra.

Katrín segir að það yrðu því mikil vonbrigði ef Ísland lenti á listanum. „Það ætti í raun og veru aðeins að vera eitt atriði að vera útistandandi af öllum þeim atriðum sem voru nefnd í upphaflegu skýrslunni um þessi 51 atriði þannig það eru ákveðin vonbrigði. Svo er ákveðin óvissa sem virðist fylgja því, við höfum dæmi um að þessi listi hefur lítil áhrif en að sjálfsögðu er mér annt um okkar orðspor og ég tel að þarna sé verið að bregðast ansi hart við þeirri stöðu sem raunverulega er uppi.“

Ef Ísland lendir á listanum verður það fyrsta Evrópuríkið í þónokkuð mörg ár. Serbía og Bosnía-Hersegóvína voru á listanum um tíma og þar hafa einnig verið ríki eins og Afganistan, Norður-Kórea og Írak. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag að Ísland ætti alls ekki heima á listanum. „Hverjir trúa því að við eigum margt sameiginlegt með þeim löndum sem eru á þessum lista? hvað er hægt að lesa í það að þessi lönd taki þá ákvörðun um að setja ísland á lista með þeim ríkjum sem þar eru Þá ætla ég að hafa þá skoðun að við eigum ekkert heima á þessum gráa lista.“

Samkvæmt heimildum fréttastofu er staðan bæði snúin og viðkvæm. Þeir sem fréttastofa ræddi við í dag vildu ekki tjá sig um málið fyrr en formleg niðurstaða væri komin. Fulltrúar Íslands væru á stöðugum fundum í París til að tala máli Íslands. Það lægi skýrt fyrir að á síðasta eina og hálfa ári hafi yfirvöld brugðist hratt við ábendingum FATF. Búið væri að innleiða hin ýmsu kerfi og breyta lögum. Staðan væri því í raun þannig að ef Ísland yrði sett á listann yrðu stjórnvöld mjög ósátt. Sumir sem fréttastofa ræddi við töldu slíkt vera beinlínis ósanngjarnt og það yrði greinilega pólitísk ákvörðun. Ísland væri með lítið hagkerfi og því auðvelt að nota landið sem fordæmi.

Þá töldu þeir sem fréttastofa ræddi við að ef Ísland færi á listann myndu áhrifin birtast fyrst og fremst í því að erfitt gæti orðið fyrir fyrirtæki að stofna til nýrra viðskiptasambanda erlendis - fyrir utan augljósa orðsporshnekki.

Fulltrúar Evrópusambandsins hafa stutt málflutning Íslands á fundunum en niðurstöðu er að vænta á morgun.  

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi