Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikil röskun á verknámi

17.03.2020 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Mikið rask er fyrirsjáanlegt í verknámi á meðan samkomubann varir og framhaldsskólar eru lokaðir. Breyta þarf stundatöflum nemenda og leggja áherslu á bóklegan hluta námsins og geyma verknám þar til síðar.

Mikil vinna fer nú fram í öllum framhaldsskólum við að endurskipuleggja námið og finna leiðir til að kenna á meðan samkomubannið varir. Sérstaklega er þetta flókið í verknámi þar sem nauðsynlegt er fyrir nemendur að vera á staðnum til að stunda sitt nám.

Viðbúið að breyta þurfi námsmati

Anna María Jónsdóttir, aðstoðarskólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri, segir stærsta verkerfnið í gær og dag hafa verið að koma á samskiptum við nemendur svo hægt verði að halda góðum tengslum við þá á meðan skólinn er lokaður. Hún segir viðbúið að breyta þurfi námsmati og finna ný og öðruvísi verkefni. Nú sé verið að meta hvað leiðir eru færar í því.

Leggja áherslu á bóknám og fresta verklegum hluta

Það gæti þurft að búa til nýja stundatöflu og taka eins mikið bóklegt og hægt er út úr náminu og kenna það næstu vikur. Þjappa sem mestu af því bóklega saman núna og leggja áherslu á verklega námið síðar. En hún segir nemendur misvel í stakk búna til að takast á við þetta og enda séu þeir mismikið í bóklegu námi. Það komi til greina að senda nemendur heim með hráefni til að vinna úr. Sumir eigi sín verkfæri heima og geti svo tekið myndband af verkefnum og sent sínum kennara.

Framhaldsskólar í samstarfi um lausnir

Starfshópur á vegum Sambands íslenskra framhaldsskóla vinnur út frá þessari sömu lausn. Að leggja áherslu á bóklega námið og fresta verklegri kennslu á meðan framhaldsskólar eru lokaðir.